Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkings R. svaraði spurningum eftir að lærlingar hans töpuðu naumlega gegn Panathinaikos í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Víkingar voru grátlega nálægt því að komast í 16-liða úrslit keppninnar en Sölvi Geir segist fyrst og fremst vera stoltur eftir tvo frábæra leiki við grískt stórveldi.
„Ég er virkilega stoltur af liðinu fyrir hvernig þeir spiluðu þessa tvo leiki við risaklúbb eins og Panathinaikos. Ég er stoltur af því hvernig þeir lögðu allt í sölurnar og voru tilbúnir að slást fyrir hvorn annan, fókusinum sem þeir sýndu í gegnum þetta allt komandi úr undirbúningstímabili og hvernig þeir eru búnir að vera með allt upp á 10 í gegnum þetta mót," sagði Sölvi.
„Panathinaikos skapaði enga stóra sénsa í þessum leik. Fyrsta markið var bara eitthvað draumamark þar sem hann slengdi honum með verri fæti og boltinn endaði undir samskeytinni. Það þurfti eitthvað svoleiðis mark til þess að brjóta okkur í þessum leik af því að við stoppuðum allar þeirra sóknir og vorum þéttir fyrir."
Það er ekki auðvelt að spila svona erfiðan keppnisleik á miðju undirbúningstímabili og segist Sölvi hafa séð skýr þreytumerki á sínum mönnum þegar tók að líða á seinni hálfleikinn. Þá var hann einnig óhress með eitt atvik þar sem slóvenski dómari leiksins flautaði alltof snemma þegar Valdimar Þór Ingimundarson var sloppinn einn í gegn, í stað þess að beita hagnaðarreglunni.
„Tankurinn kláraðist dálítið hjá okkur, sérstaklega í seinni hálfleik. Menn voru alveg búnir að hlaupa úr sér lungun og við áttum ekki mikla krafta eftir en tækifærin voru til staðar, sérstaklega í fyrri hálfleik.
„Mér finnst rosalega svekkjandi að dómarinn hafi dæmt þegar Valdimar var að sleppa í gegn. Þetta var risaatvik og hefði gefið okkur aukakraft ef hann hefði farið vel með færið.
„Þetta er hundfúlt en það er eðlilegt. Þegar þú tapar í hverju sem er þá ertu fúll og þannig á það að vera. Þetta á að svíða akkúrat núna. Ég held að þegar við erum búnir að melta þetta aðeins getum við litið til baka og verið virkilega stoltir af frammistöðunni. Ég veit að Víkingssamfélagið er mjög stolt af strákunum."
Athugasemdir