
„Við vildum taka öll þrjú stigin. Stig á útivelli er ekkert svo slæmt en við vildum vinna þennan leik," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir leikmaður Íslands eftir markalaust jafntefli við Sviss í Zurich í kvöld.
Lestu um leikinn: Sviss 0 - 0 Ísland
„Mér fannst við ekki gera nógu vel með boltann, við vörðumst ágætlega og þær fengu ekki mikið af færum. Mér fannst við þurfa að nýta okkar færi betur og koma okkur í aðeins betri góð færi. Heilt yfir var þetta allt í lagi leikur."
Þú varst aðeins að svekkja þig á að ná ekki að koma boltanum inn sjálf?
„Já, ég fékk eitt gott færi þar sem ég hefði átt að skjóta betur, og allavega að hitta rammann. Svona er þetta í dag, 0-0, við tökum stig á útivelli en viljum auðvitað þrjú."
Var erfitt að spila á móti þeim?
„Þetta var erfiður leikur, Sviss er með hörkulið og þetta er erfiður útivöllur.
Tékkneski dómarinn skipaði Sveindísi að yfirgefa völlinn þegar hún var að taka innkast en í aðdragandanum hafði hún lent í samstuði við leikmann Sviss. Hún þurfti því að bíða með að koma inná eftir að boltinn var kominn í leik.
„Ég hélt maður þyrfti bara að fara af velli ef maður þyrfti aðstoð en, ég átti að fá að taka innkastið en hún ákvað þetta, sagði mér að vera útaf. Hún hélt ég hafi fengið aðstoð en hún hefði getað talað við aðstoðardómarann eða eitthvað því ég fékk enga aðstoð. Ég er í lagi, hún skallaði mig og meiddi sig örugglega aðeins meira."
Athugasemdir