fim 21. maí 2020 17:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Lið með mikil gæði en kannski ekki góðar þoltölur" í dauðariðlinum
Mynd: Geirlaugur Kristjánsson
Alexander Már í leik gegn Augnablik síðasta sumar.
Alexander Már í leik gegn Augnablik síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ingólfur Sigurðsson fékk Alexander Má Þorláksson, leikmann Fram, í heimsókn til sín í hlaðvarpsþáttinn Ástríðuna. Þar fóru þeir yfir hvers vegna Alexander ákvað að fara í Fram í 1. deild en Alexander var langmarkahæsti leikmaður 3. deildar þegar hans lið í fyrra, KF, tryggði sér sæti í 2. deild.

Sjá einnig:
Alexander um mörkin 28: Veit ekki hvernig ég fór að þessu

Þá var spáð í spilin í 2. deild karla og snert á 3. og 4. deildinni. Í 4. deild er nýstofnað lið, Smári í Kópavogi. Smári mun leika í D-riðli deildarinnar ásamt KB, KH, Kríu, Mídasi, Hvíta riddaranum, Herði Ísafirði og Árborg. Alexander og Ingó ræddu aðeins um Smára og þennan öfluga riðil.

„Það sem sérstaklega greip athygli mína var D-riðillinn sem virkar mjög sterkur í ár. Þarna erum við með Smára, hvað geturu sagt mér um það lið?" spurði Ingó.

„Augnablik (í 3. deild) ætlar að fá fleiri góða unga stráka frá Breiðablik (heldur en undanfarin ár) á meðan kempurnar, sem eru með gæði, verða í Smáranum. Þetta gæti orðið lið með mikil gæði en kannski ekki góðar þoltölur," sagði Alexander.

D-riðillinn er dauðariðillinn
Skoðun Ingólfs er sú að riðillinn sé áberandi sterkur og hélt umræðan um riðilinn áfram.

„Ég ætla að gerast djarfur og spá Smára og Hvíta riddaranum áfram úr þessum riðli," sagði Alexander. „KH situr þá eftir?" spurði Ingó.

„Þetta er reyndar erfitt," sagði Alexander og Ingó tók undir það. „Svo ertu með KB, þeir eru fínir og nokkrar kempur þar," sagði Ingó en áður hafði verið rætt um KH og sérstaklega um Hauk Ásberg Hilmarsson.

„Hver er að raða þessu niður?" spurði Alexander. „Í þessum liðum eru menn sem kunna fótbolta," sagði Ingó.

„Þetta er dauðariðilinn," sagði Alexander og Ingólfur tók undir það: „Ég held að D standi fyrir dauðariðilinn, það er nokkuð ljóst."

Þáttinn má hlusta á hér að neðan eða í gegnum helstu hlaðvarpsveitur.


Ástríðan - Markahrókurinn Alexander
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner