Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
banner
   þri 21. maí 2024 16:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vangaveltur
Heimkoma í kortunum hjá Söru?
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var tilkynnt í dag að Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrrum landsliðsfyrirliði Íslands og ein besta fótboltakona í sögu þjóðarinnar, yrði ekki áfram hjá ítalska stórliðinu Juventus á næsta tímabili.

Sara hefur leikið með Juventus frá 2022 en þar áður var hún hjá Lyon þar sem hún vann Meistaradeildina tvisvar.

Síðasti leikur Söru fyrir Juventus var gegn Roma fyrir rúmri viku síðan en hún var ónotaður varamaður í lokaumferðinni gegn Sassuolo. Juventus endaði í öðru sæti ítölsku deildarinnar í ár, ellefu stigum á eftir Roma

Sara hefur átt magnaðan feril erlendis en það verður fróðlegt að sjá hvert næsta skref hennar verður. Er heimkoma í kortunum í sumar?

Orri Rafn Sigurðarson, fyrrum fréttamaður Fótbolta.net, sagði frá því í desember síðastliðnum að Valur væri að reyna að fá Berglindi Björg Þorvaldsdóttur og Söru Björk heim úr atvinnumennsku. Berglind Björg er búin að skrifa undir hjá Val en það er spurning hvað gerist með Söru.

Ef Sara ákveður að koma heim, þá stendur valið líklega á milli Vals og Breiðabliks en hún spilaði með Blikum áður en hún fór út í atvinnumennsku árið 2011. Þessi lið eru núna jöfn á toppi Bestu deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm leiki en þau mætast svo á föstudaginn.

Félagaskiptaglugginn á Íslandi opnar aftur 17. júlí og stendur opinn til 13. ágúst.

Það gæti samt vel verið líka að Sara eigi eitt skref eftir erlendis. Hún horfði til Englands áður en hún fór til Ítalíu, en hún var þá orðuð við Arsenal í fyrra. Það verður mjög spennandi að sjá hvað gerist.

Sara lék 145 landsleiki á sínum landsliðsferli og var lengi fyrirliði liðsins. Hún lagði landsliðsskóna á hilluna eftir árið 2022.
Athugasemdir
banner