Það vakti athygli þegar landsliðshópurinn var tilkynntur að Arnór Sigurðsson væri í hópnum. Arnór hefur ekki spilað frá því að hann var tæklaður harkalega í landsleiknum gegn Ísrael í mars og missti af endasprettinum á tímabilinu með Blackburn.
Landsliðsþjálfarinn Age Hareide var spurður út í stöðuna á Arnóri fyrir leikina gegn Englandi og Hollandi.
Landsliðsþjálfarinn Age Hareide var spurður út í stöðuna á Arnóri fyrir leikina gegn Englandi og Hollandi.
„Ég ræddi við Arnór. Við höfum valið 24 leikmenn, bara til að vera viss um að vera með 23 leikhæfa. Við þurfum að komast að því fyrir leikina hverjir geta komið og hvort að einhver geti það ekki," sagði Hareide og gaf með því í skyn að það væri alls ekki víst að Arnór gæti spilað með liðinu í leikjunum.
Þeir Guðlaugur Victor Pálsson, Alfreð Finnbogason og Hjörtur Hermannsson eru ekki í hópnum en þeir voru með liðinu í mars. Þeir glíma allir við meiðsli.
„Þeir eru allir meiddir. Ég ræddi við Hjört í morgun og endurhæfingin hans gengur hægt. Við erum með góða yfirsýn yfir stöðuna á öllum meiðslum."
„Þess vegna (út af meiðslum Hjartar og Guðlaugs) veljum við (Brynjar Inga) Bjarnason og (Hlyn Frey) Karlsson. Við vorum með þá báða í janúar. Davíð (Snorri Jónasson aðstoðarþjálfari landsliðsins) þekkir Hlyn mjög vel frá U21 liðinu. Brynjar hefur verið í hópnum áður. Þeir báðir eru að spila í Noregi, ekki mikið, en hafa staðið sig vel þegar þeir hafa spilað. Þeir fá tækifæri núna."
„Þegar menn mæta á æfingu verða menn að sanna sig og ef þeir fá tækifæri í leikjunum þá verða þeir að grípa tækifærið. Þannig virkar þetta," sagði Hareide.
Athugasemdir