Dagný Brynjarsdóttir er á leið á sitt þriðja stórmót með íslenska landsliðinu. Hún ræddi við Fótbolta.net fyrir æfingu í morgun.
„Mér líst mjög vel á þetta, gaman að spila á Englandi. Hópurinn er flottur og gaman að vera komnar aftur saman. Það er alltaf gaman að hitta stelpurnar," sagði Dagný.
„Við erum á svolítið misjöfnum stöðum. Einhverjar eru búnar að vera í vetrardeildum, einhverjar eru búnar að vera spila á fullu. Vonandi setja Steini og Ási upp í einhverja skemmtilega æfingu."
Dagný spilar með West Ham á Englandi þar sem er vetrardeild. Síðustu vikur hefur hluti landsliðsins æft á Laugardalsvelli þar sem þær hafa spilað þrjár á móti þremur og tvær á móti tveimur.
„Cessa er búin að vera útspilari og Ási þjálfari [verið með]. Eins gaman og það er að spila á litlu svæði en þá viðurkenni ég að okkur var farið að hlakka til að hitta allan hópinn, spila á stærra svæði og gera aðeins öðruvísi æfingar."
Ertu með einhverjar væntingar fyrir EM?
„Ég tel okkur allavega vera með nægilega sterkt lið til að komast upp úr riðlinum. Ég viðurkenni að ég verð ekki sátt nema við gerum það. Mig langar að komast upp úr riðlinum," sagði Dagný.
Nánar var rætt við hana og má sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum að ofan.
Athugasemdir