Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 22. september 2020 21:04
Fótbolti.net
Jón Þór um markið sem var dæmt af: Ekkert brot
Icelandair
Jón Þór var ánægður með frammistöðu Íslands
Jón Þór var ánægður með frammistöðu Íslands
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari Íslands, sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir 1-1 jafnteflisleik gegn Svíþjóð.

„Ég er drullufúll að hafa ekki unnið leikinn en á sama tíma var frammistaða liðsins stórkostleg og ég er hrikalega ánægður með leikinn. Það var 20 mínútna kafli í fyrri hálfleik þar sem Svíarnir voru með yfirhöndina í leiknum en það var eini leikkaflinn sem þær voru með yfirhöndina. Mér fannst við spila þennan leik frábærlega og er virkilega svekktur að ná ekki að vinna leikinn en á sama tíma er ég ánægður með að hafa komið til baka á móti svona öflugu liði. Það sýnir líka vegferðina sem við erum í. Hugarfarið er allan tímann stórkostlegt hjá liðinu. Þær koma marki undir inn í hálfleik, drullufúlar, en á sama tíma uppfullar af trú á verkefninu og ekki bara á að koma til baka heldur að vinna hann,“ sagði Jón Þór um leikinn.

Löglegt mark var dæmt af Íslandi í fyrri hálfleik en Jón Þór vildi lítið setja út á störf dómaranna í kvöld.

„Ég hef svosem ekkert um hana að segja. Ég var að koma úr leikbanni frá því úti í Lettlandi,“ sagði hann og glotti. Vildi greinilega ekki koma sér í nein vandræði en bætti við:

„Það var ekkert brot þarna. Glódís gerir ekkert annað en að staðsetja sig þarna og fara upp í boltann. Það er aldrei neitt brot og aldrei nein hreyfing sem að gerir það að verkum að hún brjóti á markmanninum. Það er ótrúlega svekkjandi en á sama tíma er ég stoltur af liðinu að láta mótlætið ekki brjóta okkur heldur eflir það okkur. Það er ofboðslega góður eiginleiki að hafa í liði og ég hef sagt það frá því að ég tók við því. Við höfum leiðtoga og karaktera í þessu liði. Við höfum mikla reynslu í liðinu og núna marga unga leikmenn sem eru að koma inn í liðið og hugarfarið er það sama. Það er agi og einbeiting.“

Jón Þór var áfram spurður út í markið sem Sara Björk skoraði og ekki síður atburðarrásina í kjölfarið á því þegar það var dæmt af. Þá ætluðu Svíar að bruna í sókn á meðan íslenska liðið var enn að fagna.

„Það að vinna Meistaradeildina er náttúrulega stórkostlegur árangur og þetta er mjög krefjandi verkefni fyrir Söru að mörgu leyti. Að koma hérna heim eftir þetta ótrúlega sumar og þennan ótrúlega árangur. Það er partur af svekkelsinu að þetta mark hafi verið dæmt af henni. Hún hefði svo sannarlega átt skilið að skora í þessum leik. Við vorum ekkert alltof uppteknir á bekknum af því hvort þetta var rétt eða rangt en þegar maður áttaði sig á því að hún var að dæma markið af þá öskraði maður úr sér lungun. Sem betur fer voru ekki áhorfendur á leiknum“, grínaðist Jón Þór og átti þá við að leikmenn hefðu þá kannski heyrt öskrin í þjálfarateyminu enda uppteknar við að fagna marki sem þær töldu löglegt.

„Ég veit ekkert hvað þær heyrðu eða hvað þær voru að hlusta á en við reyndum að öskra á þær til baka. Við hefðum vel getað fengið á okkur mark þarna en þær áttu samt eftir að fara framhjá Söndru og gerðu það bara einu sinni í dag. Hún varði frábærlega í þessum leik. Það er ekkert víst að þær hefðu skorað en þær komust í ágætisstöðu,“ sagði landsliðsþjálfarinn og vildi ekki taka undir það að gestirnir hafi verið óheiðarlegir þarna.
„Nei, nei. Dómarinn dæmir leikinn og ef þær hefðu skorað þarna hefði það verið partur af leiknum.“

Jón Þór fékk svo spurningu frá sænskum fjölmiðlum varðandi það hvort hann teldi að bæði lið gætu komist áfram í lokakeppni EM.

„Vonandi. Þetta eru tvö frábær lið. Við erum ekki búin að fylgjast of mikið með stöðunni því það eru enn svo margir leikir eftir en ég vona að þessi tvö lið geti komist áfram. Við einbeitum okkur þó auðvitað að okkar markmiði sem er að komast til Englands.“
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner