Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   sun 23. febrúar 2020 18:31
Ívan Guðjón Baldursson
England: Aubameyang hetjan gegn Everton
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal 3 - 2 Everton
0-1 Dominic Calvert-Lewin ('1)
1-1 Eddie Nketiah ('27)
2-1 Pierre-Emerick Aubameyang ('33)
2-2 Richarlison ('45)
3-2 Pierre-Emerick Aubameyang ('46)

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði 90 mínútur er Everton heimsótti Arsenal í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Dominic Calvert-Lewin kom gestunum yfir með glæsilegu marki strax á fyrstu mínútu. David Luiz mistókst að hreinsa frá aukaspyrnu og skallaði hann boltann þess í stað upp í loftið. Hann var fljótur að átta sig á mistökunum og reyndi að skalla boltann aftur en Calvert-Lewin var fljótari til.

Calvert-Lewin hoppaði þó ekki upp til að skalla knöttinn, heldur lyfti hann fætinum yfir haus Luiz og skoraði með einhverskonar klippu. Leikmenn Arsenal vildu fá dæmdan háskaleik fyrir hættuspark.

Sead Kolasinac þurfti að fara meiddur af velli á 18. mínútu og kom hinn efnilegi Bukayo Saka inn í hans stað. Níu mínútum síðar var Saka búinn að leggja upp jöfnunarmark Arsenal með góðri fyrirgjöf fyrir Eddie Nketiah.

Pierre-Emerick Aubameyang kom Arsenal svo yfir eftir langan bolta frá David Luiz. Hann stakk varnarmenn Everton af og kláraði örugglega.

Richarlison náði að jafna rétt fyrir leikhlé eftir atgang í vítateignum í kjölfar hornspyrnu. Staðan var því 2-2 í hálfleik.

Aubameyang kom Arsenal yfir á nýjan leik á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Hann skallaði fyrirgjöf Nicolas Pepe í netið.

Gríðarlega hart var barist allan síðari hálfleikinn og var mikil spenna á lokakaflanum þegar Nketiah skaut í slá áður en Calvert-Lewin skallaði rétt framhjá.

Inn vildi boltinn ekki og tókst lærisveinum Mikel Arteta að halda þetta út. Annar sigur Arsenal í röð undir stjórn Arteta og er liðið fjórum stigum frá Evrópusæti.

Leikurinn var yfir heildina nokkuð jafn. Gæði Aubameyang gerðu gæfumuninn og átti Dani Ceballos mjög góðan leik á miðju Arsenal.

Everton er í ellefta sæti, einu stigi á eftir Arsenal sem situr í níunda sæti.
Athugasemdir
banner
banner