Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 23. mars 2023 22:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar efast ekki um að hann sé rétti maðurinn í starfið
Icelandair
Arnar á hliðarlínunni í dag.
Arnar á hliðarlínunni í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hundfúlt tap.
Hundfúlt tap.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, sat fyrir svörum á fréttamannafundi eftir hræðilegt tap gegn Bosníu í fyrsta leiknum í undankeppni EM 2024.

Hér fyrir neðan má sjá svör hans við spurningum Fótbolta.net á fundinum.

Lestu um leikinn: Bosnía og Hersegóvína 3 -  0 Ísland

Arnar, hvað segirðu eftir svona leik? Má kalla þetta afhroð?
„Við erum náttúrulega bara hundsvekktir og óánægðir með okkar frammistöðu. Við ætluðum okkur mikið meira og vildum mikið meira. Mér fannst við bara ekki mæta til leiks eins og við ætluðum okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum aðeins meira jafnvægi í leikinn í seinni hálfleik. Þeir klára þetta með þriðja markinu. Það er bara hundfúlt að ná ekki þeirri frammistöðu sem við ætluðum okkur."

Veistu af hverju þetta gerist?
„Af hverju? Þetta hefur svolítið mikið með andstæðinginn að gera. Hann var mjög sterkur í dag. Þeir voru að spila mjög vel sem lið; unnu mikið fleiri einvígi, það var mikið meiri kraftur í þeim og við náðum ekki að klukka þá - sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Við náðum ekki að loka þá inn í þeim svæðum sem við vildum loka þá inn í. Mörkin tvö í fyrri hálfleiknum koma eftir að þeir ná að brjótast út hægra megin og færa boltann hratt yfir. Þeir ráðast á okkur þar. Þetta var að sjálfsögðu eitthvað sem við vorum búnir að ræða og vildum koma í veg fyrir. Við náðum því ekki. Aftur, þetta hefur að hluta til með okkur að gera, að sjálfsögðu, en líka hvað andstæðingurinn er góður. Það er engin tilviljun að þeir hafi unnið sinn riðil í Þjóðadeildinni í fyrra. Þeir eru mjög sterkir á heimavelli."

Fannst þér vera andleysi í liðinu?"
„Nei, mér fannst alls ekki vera andleysi. Það var mikill hugur í okkur öllum. Við ætluðum okkur virkilega að byrja vel, mikið betur en við gerðum. Ég myndi alls ekki segja að það hafi verið andleysi. Það voru allir að gera sitt besta, að reyna að klukka þá og að loka á þá. Það tók okkur bara of langan tíma að ná að stilla okkur saman."

Eruð þið þá komnir skemur á veg en þú hélst?
„Það er erfitt að segja. Mér finnst rosalega mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því á móti hverjum við erum að spila. Við erum að spila á móti andstæðingi sem er með mjög góða leikmenn, með mjög gott lið og mjög góðan hóp. Við gerum okkur stundum ekki alveg grein fyrir því hvað andstæðingarnir eru sterkir sem við erum að spila á móti. Mér finnst þessi andstæðingur vera líkur þeim sem við vorum að spila á móti í fyrra, Albaníu og Ísrael. Við vorum mikið sterkari í þeim leikjum oft á tíðum. Það er svekkelsi í þessu að við náðum ekki að mæta til leiks, ef við getum orðað það þannig."

Ertu farinn að efast um að þú sért rétti maðurinn í starfið?
„Nei, alls ekki. Ég geri mér grein fyrir því sem fótboltaþjálfari að það er alltaf pressa og væntingarnar eru háar á Íslandi. Við viljum öll ná árangri. Ég veit að drengirnir og ég, það eru engir aðilar á Íslandi sem vilja meira ná árangri en við. Það er hluti af fótbolta þegar þú tapar að þá er pressa. Ég er ekki öðruvísi en allir aðrir þjálfarar þar. Það eina sem við getum gert er að svara í næsta leik á sunnudaginn. Þetta eru tíu leikir. Þetta er ekki búið, en þetta er hundfúlt og svekkjandi."

Sjá einnig:
Treysta á þróunina - „Hann verður bara að vera áfram"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner