Kári Árnason og Rúrik Gíslason, spekingar á Viaplay, voru sammála um það að Arnar Þór Viðarsson verður að vera áfram þjálfari karlalandsliðsins.
Lestu um leikinn: Bosnía og Hersegóvína 3 - 0 Ísland
Íslenska liðið tapaði fyrir Bosníu og Hersegóvínu, 3-0, í fyrsta leiknum í undankeppninni.
Frammistaðan var arfaslök og ekki vænleg til árangurs en Kári og Rúrik, segja það ekki best í stöðunni að KSÍ reki Arnar Þór úr starfi á þessum tímapunkti. Kári var spurður hvort það ætti að halda Arnari og svaraði Kári því stuttlega áður en Rúrik tók við.
„Já, hann er búinn að fá langt reipi,“ sagði Kári.
„Þú værir að koma okkur aftur á byrjunarreit. Öll þessi þróun og viljum vona að við séum komnir áfram með þessa þróun,“ bætti Rúrik við.
Kári segir að það verði að treysta á þróunina og að Arnar fái að minnsta kosti þessa keppni til að sanna sig.
„Ef þróunaraðferðin er sú aðferð sem KSÍ ætlar að taka þá erum við komin á reit númer eitt í þeirri þróun. Eigum við að taka fjögur ár í þá þróun og sjá til hvernig það þróast og taka svo ákvörðun? Hann verður bara að vera áfram og sjá þetta í gegn og vonandi sjáum við alvöru frammistöðu á móti Liechtenstein.“
„Hann fær alltaf þessa keppni, en ég veit samt ekkert um það,“ sagði Kári í lokin.
Athugasemdir