Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn og lagði fyrsta mark Volos upp í góðum sigri á útivelli gegn Lamia í efstu deild gríska boltans.
Volos lenti undir í fyrri hálfleik en var talsvert sterkari aðilinn í dag og skóp að lokum 1-3 sigur.
Stigin eru dýrmæt fyrir Volos, þar sem liðið er núna fimm stigum fyrir ofan fallsæti þegar sex umferðir eru eftir. Lamia situr eftir á botni deildarinnar og er svo gott sem fallið niður um deild.
Brynjólfur Andersen Willumsson kom þá inn af bekknum í stórsigri Groningen í efstu deild hollenska boltans.
Groningen vann 4-1 gegn Heracles í mikilvægum slag í baráttunni um Evrópusæti.
Groningen er tveimur stigum frá umpilssæti fyrir Evrópukeppni á næstu leiktíð þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.
Að lokum var Andri Lucas Guðjohnsen í byrjunarliði Gent sem steinlá á útivelli gegn Anderlecht í belgíska boltanum.
Anderlecht vann 5-0 sigur þar sem Kasper Dolberg skoraði fernu. Andri fékk að spila fyrstu 73 mínútur leiksins áður en honum var skipt af velli.
Liðin mættust í baráttunni um síðasta lausa Evrópusætið og er Anderlecht með fjögurra stiga forystu í þeirri baráttu þegar fimm umferðir eru eftir.
Gent á heimaleik gegn Anderlecht í næstu umdferð.
Lamia 1 - 3 Volos
Groningen 4 - 1 Heracles
Anderlecht 5 - 0 Gent
Athugasemdir