
„Þetta er bara mjög gaman," sagði Bryndís Arna Níelsdóttir, sóknarmaður Vals, í dag þegar hún tók við verðlaunum fyrir að vera markahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna á tímabilinu sem var að klárast.
Bryndís skoraði í sumar 15 mörk í 22 leikjum en hún tók mikið skref fram á við frá því í fyrra.
„Ég er mjög sátt með mig og ánægð, og stolt. Markmið númer eitt, tvö og þrjú hjá mér var að komast í byrjunarliðið. Þetta er gífurlega sterkt lið. Ég tók fullt af aukaæfingum og ætlaði að koma mér á þann stað," sagði Bryndís en hún hjálpaði Valsliðinu að ná Íslandsmeistaratitlinum.
„Það er svo mikill sigurkúltúr þarna og það er mjög gaman að vinna með þessum stelpum. Að landa þessum titli með þeim var geggjað."
Bryndís verður samningslaus í lok árs en hún ætlar að taka ákvörðun um framhaldið eftir landsleikjagluggann sem er framundan.
„Þetta kemur bara allt í ljós á næstu mánuðum. Ég er ekki búin að taka neina ákvörðun núna og ætla að einbeita mér að landsliðsverkefninu," sagði Bryndís en þegar hún var spurð hvort önnur íslensk félög hefðu heyrt í sér þá sagði hún:
„Já, það eru alltaf einhverjir möguleikar. Ég skoða þá eftir landsliðsverkefnið. Þá tek ég ákvörðun."
Bryndís hefur meðal annars verið orðuð við Stjörnuna.
Hún segir þá að atvinnumennskan sé að heilla sig mikið. „Það er minn draumur. Það er bara spurning með tímasetningu og rétta liðið. Ég skoða þetta bara."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir