Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 24. febrúar 2022 15:38
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vangaveltur um neðri deildar bikar
Jónas Halldór Friðriksson ritar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Jónas Halldór Friðriksson
Jónas Halldór Friðriksson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sér neðri deildar bikar?
Sér neðri deildar bikar?
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Nú langar mig að setja á blað nokkra punkta er varða neðri deildar bikar karla. Fyrir Ársþingi KSÍ liggur tillaga um að árið 2023 verði sett á fót bikarkeppni í neðrideildum karla. Mikil rómantík á að skapast í kringum það að bæta við bikarkeppni og fá mögulega úrslitaleik á Laugardalsvelli. Lagt er til að 32 lið komist í keppnina og eru það þau lið sem leika í 2. og 3. deild ásamt liðunum sem féllu úr 3. deild árið áður og liðum þrjú til átta í 4. deild árið áður. Leikið verður samkvæmt úrsláttakeppni.

Ég hef haft mínar efasemdir um nauðsyn þessarar keppni og mun rekja ástæður þess hér að neðan. Þar að auki tel ég að þessi keppni sé til nú þegar í formi Lengjubikarsins, kannski er möguleiki að gera þá keppni meira spennandi þannig að úrslitaleikurinn í þeirri keppni endi á Laugardalsvelli og við getum upplifað rómantíkina, eða hvað?

Í fyrsta lagi snúa mínar efasemdir að leikjafjölda og því um leið að leikjaálagi. Langar mig að taka dæmi út frá mínu félagi og mótafyrirkomulaginu eins og það lítur út fyrir keppnisárið 2022. Völsungur hefur leik í Lengjubikarnum sunnudaginn 27. febrúar og á síðasta leik í íslandsmóti laugardaginn 17. september. Völsungur spilar sem sagt mót á vegum KSÍ yfir 30 vikna tímabil (30 helgar frá þeirri fyrstu og að síðasta leik). Nú þegar eru komnir á dagskrá hjá Völsungi 27 leikir í Lengjubikar og deild, við þetta á eftir að bætast 1-3 leikir í bikar og mögulega 1-2 leikir komist liðið áfram í Lengjubikarnum. Leikirnir verða því aldrei færri en 28 og sennilega í það mesta 32. Ef við spilum 28 leiki verða helgarfríin á þessu tímabili fimm talsins en ef við förum upp í 32 leiki að þá verða helgarfríin þrjú talsins að meðtaldri verslunarmannahelginni. Hafa ber þó í huga að þá er leikið á miðvikudegi fyrir versló og svo strax aftur á laugardegi eftir versló.

Ef við tökum sama tímabil og heimfærum það á t.d ÍA í efstu deild (tímabilið frá 27. febrúar til og með 17. sempember) þá mun ÍA spila að lágmarki 25 leiki og að hámarki 30 leiki komist liðið alla leið í úrslit bikars og Lengjubikars (hafa ber í huga að til umræðu eru bara þeir leikir sem fara fram á tímabilinu 27. febrúar til og með 17. september).

Ef við tökum mið að verstu mögulegu útkomu fyrir bæði lið mun Völsungur leika tveim leikjum meira á umræddu tímabili. Sé tekið mið af bestu mögulegu útkomu fyrir bæði lið mun Völsungur einnig leika tveim leikjum meira.

Þessar 30 umræddu vikur mun ÍA spila 25-30 leiki á meðan Völsungur leikur 28-32 leiki. Hafa ber í huga að í efstu deild er landsleikjapása og fær því liðið í efstu deild 17 daga pásu í lok maí og byrjun júní. Lengsta pásan fyrir lið eins og Völsung er í kringum verslunarmannahelgi og eru það 9 dagar.

En af hverju er ég að velta þessu upp?

Aðal ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er að ég hef áhyggjur af því hvar eigi að koma neðri deildarbikarnum fyrir inn í þessu prógrammi. Ég geri mér grein fyrir að undanúrslit og úrslit eiga að vera leikin eftir að Íslandsmótum líkur. Það gerir hinsvegar að verkum að okkur vantar að bæta við 1-3 leikjum inn í það tímabil sem ég tek fyrir hér að ofan. Árið 2023 mun því Völsungur á sama tímabili leika að lágmarki 28 leiki og að hámarki 35 á tímabili sem einungis telur 30 helgar. Munum að í neðri deildum er þetta að að mestu leiti áhugamennska.

Það má hinsvegar ekki misskilja mig. Ég hef einungis áhyggjur af því hvernig eigi að koma þessu öllu fyrir. Í mínum huga erum við að spila neðri deildar bikar í dag. Er kannski raunhæfasta og besta lausnin að skoða hvað við getum gert fyrir hann þannig að úr verði skemmtilegra mót með skemmtilegum og rómantískum endi á Laugardalsvelli?

Jónas Halldór Friðriksson
Framkvæmdastjóri Völsungs
Athugasemdir
banner
banner