Byrjun þessa árs hefur ekki verið auðveld fyrir brasilíska ungstirnið Endrick. Hann hefur spilað tíu leiki með aðalliði Palmeiras og ekki tekist að skora.
Þetta er að hafa mikil áhrif á sjálfstraust hans og andlega líðan, en hann brast í grát er hann var tekinn af velli eftir klukkutíma leik gegn Bragantino á dögunum.
Það er mikil pressa lögð á herðar hans þrátt fyrir að hann sé aðeins 16 ára gamall. Endrick fer nefnilega til Real Madrid þegar hann verður 18 ára, en Madrídarstórveldið borgar fyrir hann allt að 72 milljónir evra.
„Hann verður að vera rólegur. Það er mikil pressa á hann að skora mörk. Mörkin munu koma. Hann verður bara að vera rólegur og halda áfram að brosa," sagði Abel Ferreira, þjálfari Palmeiras, um málið.
Endrick er talin einhver mesta vonarstjarna fótboltans og það er eflaust ekki auðvelt að takast á við þá pressu.
Athugasemdir