Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var temmilega sáttur með 2-0 sigurinn á Port Vale í enska deildabikarnum í kvöld, en Arsenal er komið áfram í 16-liða úrslit og mætir þar Brighton.
Eberechi Eze og Leandro Trossard skoruðu mörk Arsenal í kvöld, en það fór aðeins um Arteta í síðari hálfleiknum.
„Stærsta við þetta er orðsporið og það er fremur stórt. Við vissum að áhorfendurnir myndu drífa þá áfram ef við hefðum gefið þeim eitthvað. Það vantaði alla stjórn hjá okkur þegar þeir fengu innkast eftir innkast í seinni hálfleiknum.“
„Þeir voru mjög beinskeyttir og vildu ráðast á teiginn en við vildum forðast það. Við áttum góð augnablik í leiknum þar sem við vorum með yfirráð og vorum mjög góðir,“ sagði Arteta.
Arsenal keypti Eze frá Crystal Palace í síðasta mánuði, en hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í kvöld. Arteta var ánægður með hann.
„Þetta er ástæðan fyrir því að við fengum hann og það var til að vinna fótboltaleiki. Mér fannst hann meira að segja getað skorað tvö til viðbótar.“
Christian Norgaard byrjaði sinn fyrsta leik síðan hann kom frá Brentford. Arteta vildi gefa honum og nokkrum öðrum mínútur til að aðlagast leik liðsins.
„Hann kemur inn með karakter og leiðtogahæfni. Ég er ótrúlega ánægður með hann og leikmennina sem hafa ekki fengið að spila margar mínútur.“
Bukayo Saka er þá ný stiginn upp úr erfiðum meiðslum, en Arteta taldi mikilvægt fyrir hann að fá að minnsta kosti klukkutíma.
„Við vildum að hann myndi spila í mesta lagi 60 mínútur því hann er að koma úr slæmum meiðslum í annað sinn og við þurftum aðeins að stýra mínútufjöldanum,“ sagði Arteta.
Athugasemdir