þri 25. janúar 2022 16:07
Elvar Geir Magnússon
Stjörnurnar í Dúbaí - Lingard og Rashford með umdeildum rappara
Jesse Lingard, Wiley og Marcus Rashford.
Jesse Lingard, Wiley og Marcus Rashford.
Mynd: Twitter
Það er vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni og margir leikmenn deildarinnar eru að njóta þess. Jesse Lingard og Marcus Rashford, leikmenn Manchester United, eru saman í Dúbaí þar sem þeir æfa á daginn og djamma á kvöldin.

Á samfélagsmiðlum birtist mynd af þeim með hinum umdeilda rappara Wiley sem var bannaður frá Twitter 2020 vegna gyðingahaturs.

Myndin vakti mikið umtal en Rashford sagði á samfélagsmiðlum að ekki ætti að mistúlka myndina, hann væri sjálfur algjörlega mótfallinn mismunun sem beindist gegn samfélagi gyðinga. Þá væri hann þeirrar skoðunar að meiri áherslu ætti að leggja á að berjast gegn mismunun af hverju tagi í fótboltanum.

Rashford hefur hlotið verðskuldað lof og viðurkenningar fyrir baráttu sína fyrir bættu samfélagi og vill greinilega ekki að þessi mynd setji einhvern blett á þá baráttu.

Þeir Lingard og Rashford birtu einnig mynd af sér með bresku söngkonunni Alice Kube en þeir hafa ekki bara birt myndir frá skemmtanalífinu heldur einnig af sér berum að ofan að æfa í sólinni í furstadæmunum.

Dúbaí er vinsæll áfangastaður hjá leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar. Andy Robertson, Alex Oxlade-Chamberlain og James Milner, leikmenn Liverpool, eru einnig á staðnum og kepptu á Dubai Desert Classic Pro-Am golfmótinu. Harry Maguire, varnarmaður Manchester United, og Jordan Pickford, markvörður Everton, tóku einnig þátt.

Jack Grealish leikmaður Manchester City er í Dúbaí með John McGinn, góðvini sínum og fyrrum samherja hjá Aston Villa. Báðir með bros á vör.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner