Bólivía 0 - 0 Úrúgvæ
Manuel Ugarte og Rodrigo Bentancur voru meðal byrjunarliðsmanna er Úrúgvæ heimsótti Bólivíu í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM í kvöld.
Staðan var markalaus eftir tíðindalítinn og bragðdaufan fyrri hálfleik, þar sem heimamenn í Bólivíu voru þó óvænt sterkari aðilinn.
Federico Valverde, Darwin Núnez og Facundo Pellistri komu allir inn af bekknum í hálfleik en spilamennska Úrúgvæja skánaði ekki. Þess í stað juku heimamenn í liði Bólivíu sóknarþungan til muna og sköpuðu sér mikið af hættulegum stöðum.
Bólivíu tókst ekki að skora þrátt fyrir gríðarlegan sóknarþunga og voru Úrúgvæjar stálheppnir að fá ekki mark á sig.
Lokatölur urðu því 0-0 og er Úrúgvæ áfram í góðri stöðu í undankeppni fyrir HM, með 21 stig eftir 14 umferðir.
Bólivía situr í umspilssætinu sem stendur með 14 stig en er í harðri baráttu við Venesúela, Perú og Síle sem eru öll að reyna að næla sér í sama umspilssæti.
Úrúgvæ átti ekki eina marktilraun sem hæfði rammann í kvöld.
Athugasemdir