Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA var gríðarlega ánægður eftir sigur liðsins gegn Tindastóli í Boganum í kvöld. Fótbolti.net ræddi við hann í leikslok.
Lestu um leikinn: Þór/KA 5 - 0 Tindastóll
„Hrikalega ánægður með fyrri hálfleikinn. VIð vorum kannski fullsödd í seinni fyrir minn smekk en náum inn einu marki. Við hefðum getað gert okkur þetta auðveldara fyrir með því að róa okkur aðeins. Ég er ógeðslega ánægður með að halda hreinu og skora fimm mörk," sagði Jóhann.
„Mér fannst vanta hungur í okkur í seinni hálfleik, það var eins og við værum að bíða eftir því að þetta væri búið. Það breytir því ekki að ég er svo ánægður hvernig ákefðin í varnarleiknum er, við gefum ekkert eftir, við viljum verja markið okkar. Það er svo mikill vilji í þeim að það er ekkert annað hægt en að vera ánægður með það."
Staðan var 4-0 í hálfleik en Emelía Ósk Kruger og Sonja Björg Sigurðardóttir komu inn á sem varamenn og bjuggu til fimmta og síðasta mark leiksins.
„Það er ekki auðvelt að koma inn á og setja mark sitt á leikinn alveg sama hvernig staðan er. Það sem Sonja og Emelía gerðu var frábært hjá þeim, að koma svona tilbúnar inn í verkefnið, þær eiga stórt hrós skilið," sagði Jóhann.