
Grindavík hefur verið að hrapa niður töfluna í Lengjudeildinni en í kvöld beið liðið ósigur gegn Selfossi 2-0. Helgi Sigurðsson þjálfari Grindvíkinga segir að sjálfstraustið í leikmannahópnum sé við frostmark.
Lestu um leikinn: Selfoss 2 - 0 Grindavík
„Þetta var langt frá því að vera nægilega gott. Ég held að það viti það allir, hvort sem það eru við í þjálfarateyminu eða leikmenn, að þetta er langt frá því að vera nægilega gott. Þetta hefur með sjálfstraust að gera, menn verða litlir í sér og við vorum hvergi nálægt því að skora," sagði Helgi eftir leikinn.
„Við erum í miklu basli í sóknarleiknum og það er erfitt að eiga við þetta þegar sjálfstraustið er komið svona langt niður. Það er mikil brekka og það þarf margt að breytast."
Talað hefur verið um að sæti Helga sé heitt.
„Það eru allir svekktir yfir þessu en það sem stendur upp úr er að ég ber auðvitað ábyrgð á þessu og þarf að finna einhverjar lausnir. Það er ekki létt að finna lausnir," sagði Helgi.
„Það þýðir ekki að horfa bara á þjálfarann og bíða bara eftir að það gerist eitthvað með hann. Leikmennirnir spila leikinn og við erum auðvitað hér til að hjálpa þeim. Ef ég er orðinn vandamálið í Grindavík þá er orðið eitthvað mikið að. En auðvitað tek ég ábyrgðina sem þjálfari. Ef menn vilja gera breytingar þá gera þeir bara breytingar. Ég hef samt fulla trú á því að við getum snúið þessu við. En við þurfum allir að fara að gera betur, hvort sem það er þjálfarateymið eða leikmenn. Við erum í þessu saman."
Guðjón Pétur aftur til æfinga á morgun
Guðjón Pétur Lýðsson var utan leikmannahóps Grindavíkur annan leikinn í röð, eftir lætin sem urðu eftir leikinn gegn Gróttu. Sögusagnir hafa verið í gangi um að Guðjón gæti verið á leið frá Grindavík en Helgi segir það ekki satt.
„Hann mætir á æfingu á morgun. Þetta mál hefur tekið á hann og við gáfum honum aukadaga til að jafna sig á því. Hann er væntanlegur inn í hópinn aftur á morgun."
Athugasemdir