Valur sigraði FH 4-2 á Kaplakrikavelli í dag þegar liðin mættust í síðustu umferð Bestu deildar kvenna áður en deildinni er svo skipt í tvo hluta. Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði sjálf tvö mörk í leiknum.
Lestu um leikinn: FH 2 - 4 Valur
„Mjög gott. Alltaf gott að vinna og mér fannst við eiga þetta skilið þannig þetta er bara mjög gott.“
„Við byrjuðum leikinn ekki vel. Það tók okkur smá tíma að komast inn í leikinn. Þegar þær skora þá vissum við að við þyrftum að gefa í og við gerðum það og jöfnuðum. Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur hjá okkur. En við ákváðum bara að ýta á on takkann í seinni hálfleik og það gekk.“
Berglind skoraði tvö mörk í leiknum, sem gerist ekki á hverjum degi hjá henni.
„Já, það gerist ekki oft að maður skorar tvö þannig þetta er extra einstakt þegar þetta gerist af því maður er djúpur miðjumaður og þá er maður ekkert mikið að fara fram. En þegar það gerist þá er það mjög gott þannig þetta er bara geggjað.“
En eigum við þá von á fleiri mörkum á næstunni frá Berglindi?
„Auðvitað maður er alltaf gráðug í að skora en það bara kemur í ljós. Það fer bara eftir því hvernig leikurinn spilast en auðvitað vil ég hjálpa liðinu að vinna og ef það er að skora þá ætla ég að gera það.“
Núna verður deildinni skipt í tvo hluta og endaspretturinn er framundan.
„Við erum efstar eins og staðan er núna og við ætlum að halda því áfram. Það eru fimm leikir eftir og við tökum bara einn leik í einu og við ætlum að vinna þennan Íslandsmeistaratitil.“