Nökkvi Þeyr Þórisson var í byrjunarliði St. Louis City sem heimsótti Portland Timbers í bandarísku MLS deildinni í nótt og úr varð mikil skemmtun.
St. Louis var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi 1-3 í leikhlé en heimamenn í liði Portland voru ekki á því að gefast upp.
Nökkvi Þeyr kom St. Louis í 2-4 forystu í síðari hálfleik en heimamönnum tókst að brúa bilið og jafna metin að lokum, með dramatísku marki frá Evander - sem var lykilhlekkur í liði Midtjylland áður en hann skipti til Bandaríkjanna - mjög seint í uppbótartíma.
Lokatölur urðu því 4-4 og er St. Louis aðeins komið með 24 stig úr 26 umferðum á miklu vonbrigðatímabili.
Dagur Dan Þórhallsson var þá í byrjunarliði Orlando City sem steinlá á útivelli gegn Sporting Kansas.
Orlando tapaði leiknum 3-0 en Dagur Dan og félagar eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni MLs deildarinnar.
Að lokum skoraði Luis Suárez bæði mörkin er Inter Miami vann 2-0 sigur í toppslag gegn FC Cincinnati, án aðstoðar frá Lionel Messi sem er að glíma við meiðsli.
Suárez skoraði bæði mörkin á fyrstu sex mínútum leiksins og fékk liðsfélagi hans Tomas Aviles rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.
Tíu leikmönnum Inter tókst þó að halda forystunni gegn Cincinnati og urðu lokatölur 2-0. Jordi Alba og Sergio Busquets voru meðal byrjunarliðsmanna í liði Inter.
Portland Timbers 4 - 4 St. Louis City
0-1 S. Becher ('10)
0-2 E. Lowen ('36, víti)
1-2 J. Rodriguez ('39)
1-3 C. Teuchert ('45+2)
2-3 F. Mora ('57)
2-4 Nökkvi Þeyr Þórisson ('58)
3-4 F. Mora ('65)
4-4 Evander ('99)
Rautt spjald: F. Mora, Portland ('93)
Inter Miami 2 - 0 FC Cincinnati
1-0 Luis Suarez ('1)
2-0 Luis Suarez ('6)
Rautt spjald: T. Aviles, Inter ('42)
Sporting Kansas City 3 - 0 Orlando City
Athugasemdir