Arsenal reynir við Kounde - Vardy orðaður við Wrexham - Antony gæti verið áfram hjá Betis
   lau 26. apríl 2025 19:53
Ívan Guðjón Baldursson
Emery: Mikilvægt að bregðast rétt við
Unai Emery hefur gert stórkostlega hluti frá komu sinni til Aston Villa.
Unai Emery hefur gert stórkostlega hluti frá komu sinni til Aston Villa.
Mynd: EPA
Unai Emery þjálfari Aston Villa var vonsvikinn eftir 3-0 tap gegn Crystal Palace í undanúrslitum enska bikarsins í dag. Liðin mættust á Wembley leikvanginum þar sem lærisveinar Emery réðu ekki við Ismaila Sarr, sem lagði fyrsta markið upp í fyrri hálfleik áður en hann gerði út um viðureignina með tvennu í seinni hálfleik.

Aston Villa saknaði augljóslega Marcus Rashford þar sem sóknarleikur liðsins var bitlaus í dag, en Rashford var fjarverandi vegna meiðsla.

„Því miður þá vorum við alltof lengi að bregðast við. Þeir voru komnir í 2-0 þegar við byrjuðum að skapa okkur færi en við nýttum þau ekki. Þeir eru mjög öflugir í skyndisóknum og áttu skilið að sigra í dag. Þeir eiga skilið að fara í úrslitaleikinn," sagði Emery.

„Við verðum að samþykkja þetta og halda áfram á okkar braut. Við vildum komast í úrslitaleikinn en það hafðist ekki. Á svona stundum finnst mér gott að horfa til baka á þegar ég kom hingað fyrir tveimur árum og liðið var á slæmum stað. Við höfum náð frábærum árangri á skömmum tíma og tapið í dag er einfaldlega partur af ferlinu. Við erum að læra að spila með auknu leikjaálagi.

„Mér þykir fyrir því að hafa tapað þessum leik en það er mikilvægt að bregðast fljótt og rétt við því við erum í hörkubaráttu í úrvalsdeildinni. Við þurfum að setja alla okkar einbeitingu á næsta leik."


Aston Villa er í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar sem stendur, aðeins þremur stigum frá Meistaradeildarsæti þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.
Athugasemdir
banner