
„Þetta var erfitt. Mér fannst Selfoss aðlagast aðstæðunum betur," sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, eftir 1-3 tap í nágrannaslag gegn Selfossi í Lengjudeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Ægir 1 - 3 Selfoss
„Ég verð að viðurkenna að þeir voru betri í mörgum þáttum leiksins að hluta til í byrjun leiksins og svo allan seinni hálfleikinn. Það var bara tímaspursmál hvenær við myndum fá á okkur mark."
Vindurinn hafði mikil áhrif á leikinn og það var erfitt að spila fótbolta í Þorlákshöfn í kvöld.
„Þetta eru ekki aðstæður sem henta leikstíl okkar. Við vorum líka án þriggja lykilmanna í kvöld. Það er ekki afsökun en við vorum ekki með okkar sterkasta lið."
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1999 þar sem Selfoss kemur í heimsókn í Þorlákshöfn og spilar þar. „Það er alltaf gaman þegar þú vinnur í svona leikjum en ekki ef þú tapar. Þetta er grannaslagur og stór leikur, en þeir gerðu betur en við."
Sóknarmaðurinn Cristofer Rolin var ekki með Ægi í kvöld af persónulegum ástæðum og þá voru Serbarnir Sladjan Mijatovic og Dimitrije Cokic á meiðslalistanum. „Við erum ungt og óreynt lið, sérstaklega á þessu stigi. Það er erfitt þegar það vantar einn leikmann og enn erfiðara þegar það vantar fleiri."
Ægir er með eitt stig eftir fjóra leiki og situr á botni Lengjudeildarinnar. „Byrjunin er ekki góð en ég hef trú á leikmönnum mínum. Mér finnst við vera með gæði, sérstaklega þegar við erum allir saman. Það eru 18 leikir eftir og mörg stig eftir í pottinum."
Athugasemdir