Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. júlí 2022 19:13
Brynjar Ingi Erluson
Sambandsdeildin: Víkingur áfram eftir markalaust jafntefli í Wales
Víkingur er komið áfram
Víkingur er komið áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar spila líklega við Lech Poznan í næstu umferð
Víkingar spila líklega við Lech Poznan í næstu umferð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
The New Saints 0 - 0 Víkingur R. (0-2, Víkingur áfram samanlagt)
Lestu um leikinn

Víkingur R. er komið í 3. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa unnið velska félagið The New Saints, 2-0, samanlagt í tveimur leikjum.

Íslenska liðið vann TNS 2-0 í fyrri leiknum þar sem Kristall Máni Ingason skoraði tvö mörk af vítapunktinum.

Liðin sköpuðu sér engin dauðafæri fyrsta hálftímann í dag og reyndi lítið á Ingvar Jónsson í markinu.

Kyle McLagan fékk ágætis skallafæri á 30. mínútu eftir hornspyrnu en boltinn rétt framhjá markinu. Víkingar fengu sex hornspyrnur í fyrri hálfleiknum en náðu ekki að gera sér mat úr þeim. Staðan markalaus í hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum kom pólski framherjinn Adrian Cieslewicz sér í dauðafæri við fjærstöng en skallaði boltann framhjá. Heimamenn fóru þar illa að ráði sínu.

Víkingar reyndu að sækja næstu mínúturnar á eftir. Kristall Máni Ingason kom sér í hættulega stöðu við mark TNS en markvörður liðsins kom út á móti og náði að loka. Stuttu síðar átti Karl Friðleifur Gunnarsson fínasta skot en boltinn framhjá markinu.

Gestirnir náðu að halda þetta út enda þurftu þeir ekki á mörkunum að halda. Lokatölur í Wales, 0-0, og það þýðir að Víkingur er komið áfram í 3. umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Víkingur mætir töluvert sterkara liði þar en það verður að öllum líkindum pólska stórliðið Lech Poznan. Liðið vann Dinamo Batumi frá Georgíu, 5-0, í fyrri leik liðanna, en þau eigast aftur við á fimmtudag.

Þriðja umferðin er spiluð 4. og 11. ágúst næstkomandi og mun sigurvegarinn úr þeirri rimmu fara í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner