Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, er látinn eftir erfiða baráttu við veikindi. Hann var 76 ára gamall þegar hann lést.
23.03.2024 17:17
Sven-Göran fékk standandi lófaklapp á Anfield - Torres skoraði fyrir framan The Kop
Í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans kemur fram að hann hafi látist á heimili sínu í morgun.
„Fjölskyldan biður um virðingu fyrir ósk sinni um að syrgja í einrúmi og að ekki sé haft samband við hana," segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Eriksson var fyrsti erlendi þjálfarinn til að stýra enska landsliðinu en hann kom liðinu í 8-liða úrslit HM 2002 og 2006.
Eriksson átti langan feril í þjálfun en starfaði síðast sem yfirmaður íþróttamála hjá sænska félaginu Karlstad. Hann lét af störfum þar í upphafi síðasta árs vegna heilsufarsvandamála.
Hann átti tvo kafla hjá Benfica í Portúgal ásamt því að stýra Roma, Fiorentina, Sampdoria og Lazio á Ítalíu. Hann vann sjö titla hjá Lazio, þar á meðal ítalska meistaratitilinn, tvo ítalska bikara og Evrópukeppni bikarhafa.
Eriksson sagði upp hjá Lazio í janúar 2001 til að taka við enska landsliðinu af Kevin Keegan. Hann hætti þar eftir HM 2006 þrátt fyrir að eiga tvö ár eftir af samningi sínum. Engin opinber skýring var gefin út á þeim tíma en hann hafði lent í umfjöllun enskra slúðurblaða vegna kvennafars.
Eftir þetta kom hann víða við á sínum ferli og stýrði þar á meðal Manchester City, Leicester og landsliðum Mexíkó, Fílabeinsstrandarinnar og Filippseyja. Hans síðustu stjórastörf í félagsliðaboltanum voru í Kína.
Fyrr á þessu ári fékk hann sína hinstu ósk uppfyllta þegar hann stýrði goðsagnaliði Liverpool í góðgerðaleik. Hann var mikill stuðningsmaður Liverpool alla tíð.
Athugasemdir