Finnski sóknarmaðurinn Teemu Pukki verður áfram hjá Norwich í bili en Sky Sports telja miklar líkur á að hann skipti yfir til úrvalsdeildarfélags í janúar ef honum gengur vel í Championship deildinni.
                
                
                                    Wolves, Leeds, Aston Villa, West Brom og Sheffield United hafa öll áhuga á sóknarmanninum og settu sig í samband við Norwich til að ræða kaupverð.
Verðmiði Norwich er talinn of hár en félög frá Þýskalandi og Tyrklandi hafa einnig áhuga á Pukki.
Pukki er þrítugur og skoraði 29 mörk fyrir Norwich þegar félagið var í Championship deildinni 2018-19. Hann gerði 11 mörk í 36 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og þá á hann 82 landsleiki að baki fyrir Finnland.
Hann hefur meðal annars spilað fyrir Sevilla, Schalke og Celtic á ferlinum en stóð sig best hjá Bröndby, þar sem hann raðaði inn mörkunum áður en Norwich keypti hann fyrir tveimur árum.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    
                        
        
         
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                    
        
         
                 
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
        

