Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 26. nóvember 2020 12:30
Siggi Ágústsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þegar við Diego hittumst loksins!
Siggi Ágústsson
Siggi Ágústsson
Undirritaður ásamt Maradona og Eyjólfi Sverrissyni í Moskvu sumarið 2018.
Undirritaður ásamt Maradona og Eyjólfi Sverrissyni í Moskvu sumarið 2018.
Mynd: Aðsend
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Aðsend
Mynd: Getty Images
Spartak leikvangurinn i Moskvu. Landsleikur Argentínu og Íslands. Hér myndi það gerast. Hér myndi ég vera á sama velli og Maradona. „Hitta“ hann. Hvorugur að spila reyndar. Ég hlakkaði mjög mikið til, en gat ekki verið viss um að hann væri jafnspenntur yfir þessu.

Þannig vildi til að ég var í “einkaboxi” til móts við vítateigslínu, ásamt góðum vinum – við vorum mættir snemma. Bakvið markið þeim megin sem við sátum voru hörðustu stuðningsmenn Argentínu. Þeir voru líka mættir snemma. Vel hressir. Sigurvissir. Þegar ég labba úr glerbúrinu og fram á svalirnar trylltust Argentínumennirnir og öskruðu, hrópuðu og sungu – sneru allir að mér og störðu á mig. Enginn leikmaður var úti á velli að hita upp. Ég hálffraus – en hreyfði mig svo enn framar á svalirnar. Það gersamlega trylltist argentínska mannhafið. Ég veifaði – það varð allt sturlað. Hvílík læti.

Ég hafði verið í námi með vel tengdum Argentínumönnum og ágætlega þokkaður af þeim að ég taldi- en fannst samt eitthvað skrýtið við að Argentína væri að horfa á mig og fylgjast með mér. Það er auðvitað ekki ný tilfinning, en þetta var af stærðargráðu mér áður óþekktri. Svo sterk voru viðbrögðin að það runnu á mig tvær grímur – gat verið að þeir væru ekki að fagna mér?

Eftir smá hik þá átta ég mig á að líklega eru þeir ekki að fagna mér. Eða amk ekki bara.

Þar sem ég lít í kringum mig, og skáhallt niður á næstu hæð –í box - þar veifar snaggaralegur dökkhærður maður mannfjöldanum. Ég þekki hann. Ég veit hver þetta er. Þetta er hann: #10. El Pibe de Oro. D10S. Sjálfur Diego Armando Maradona.

Goðsögnin sjálf. Langbesti fótboltamaður heims, fyrr og síðar. Tæknilegir yfirburðir, sigurvilji engum líkur en líka grjótharður og duglegur. Draumaleikmaður. Sá besti. Punktur.

Átrúnaðargoð um allan heim á hátindi knattspyrnufrægðar sinnar og frægur fyrir allskonar annað síðar meir.

Við höfðum stigið út á svalirnar á sömu stundu.

Leikurinn hófst. En ég átti erfitt að einbeita mér að leiknum. Hann, þetta mikla átrúnaðargoð var hér. Líklega fengi ég ekki annað betra tækifæri til að hitta hann og …. Lengra náði það nú ekki. Vissi bara að mig langaði að hitta þessu hetju uppvaxtaráranna. Hitta hann og segja honum hve ég hefði dáð hann og knattspyrnuafrek hans -og hverslags fífl þessi Goikoetxea hefði verið, auðvitað. Og kannski að við hefðum líka slegið Englendinga út úr stórkeppni. Já – við hefðum svo sem um nóg að tala, þegar við myndum loks hittast.

Ég einsetti mér að fara og hitta Maradona í hálfleik. Hvernig sem ég færi að því. Rétt fyrir leikhlé hnippti ég í Eyjólf Sverrisson og æskuvinkonu mína, Brigittu Matthíasdóttur – og sagði þeim að núna værum við að fara að hitta Maradona.
Þau litu á þær lystisemdir velmektar sem okkar biðu í glerbúrinu í hálfleik með velþóknun og voru ekki sérlega trúuð á að við gætum bara hitt Maradona, bara si svona – en komu þó með. Við fórum niður á næstu hæð.

Það var augljóst í hvaða “boxi” Maradona og fylgdarlið væri. Þar sem öryggisgæslan var mest.

Þangað inn átti ekki að hleypa okkur – en þá kom sér vel að vera sauðþrár og vera vanur að stjórna í göngum norðan heiða. Þar þarf oft að tala mjög skýrt og ákveðið. Jafnvel hátt.

Þetta samtal við öryggisgæslu og hermenn gekk nú ekki vel að mér fannst í byrjun. Að endingu sagði ég, að því er mér fannst með miklum valdsmannsbrag (kannski þjósti), að ég væri Sigurður Ágústsson Von Geitaskarð og með mér væri fyrirmenni svo sem fyrrum landsliðsþjálfari Íslands og landsliðsfyrirliði – og við værum hingað komnir til að hitta Maradona. Og að Maradona yrði án vafa alveg trylltur ef hann myndi frétta að okkur hefði verið meinaður aðgangur.

Fyrirsvarsmaður öryggisgæslunnar fór inn í boxið – og kom svo út með persónulegan aðstoðarmann Maradona. Eftir örstutt samtal við hann – hvar fram kom hver við værum í raun og sann- einlægir aðdáendur kappans þó mest – var okkur hleypt inn og við spjölluðum við hann og knúsuðumst þar til að eftir að seinni hálfleikur hófst.

Maradona tók okkur mjög vel. Mjög vel. Fagnandi. Hann var hress, afar vinalegur og gaf mikið af sér. Við spjölluðum um Ísland, landsliðið og þrautseigju þess og allskonar. Og auðvitað hve gaman það er að sigra Englendinga í fótbolta. Þetta er samt smá í móðu - eftirá. Þannig. En samt alls ekki.

Svo ótrúlega sem það vill nú til þá hef ég hitt og spjallað við heimsfrægt fólk áður, fyrirmenni og frægðarsólir og ekki fundist neitt sérstakt við það. Þetta er bara fólk. Eins og við hin. En þarna varð ég það sem sagt er á ensku “starstruck”. Eyjólfur, sem hitt hefur og att kappi við marga af helstu knattspyrnumönnum heims var líka starstruck -og við öll. Enda ekkert skrýtið, ljóminn sem af þessum manni stafaði verður ekki í orð færður – amk ekki af mér.

Eitt það fyrsta sem ég sagði við Diego (við sem þekkjum hann köllum hann Diego) þegar við höfðum verið kynntir var að ég elskaði hann – á spænsku. Ég tala að öllu jöfnu ekki spænsku. En þetta var alveg rétt. Ég hreinlega elskaði knattspyrnumanninn Diego.

Úrslitin voru Íslandi góð í þessum leik. Og frábært að sjá strákana spila gegn Argentínu og standa sig vel. En að hitta Diego …. . Veit ekki hve mörgum auðnast að hitta æskuhetjur sínar. En ég mæli með því. Það var algerlega ólýsanlegt þótt hér hafi verið gerð aum tilraun.

Diego – far vel. Og takk fyrir allt vinur minn.
Athugasemdir
banner
banner