Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
   mið 26. nóvember 2025 14:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Atli Sigurjóns yfirgefur KR (Staðfest) - Á leið í Þór
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Sigurjónsson er farinn frá KR, þetta staðfestir félagið með kveðjufærslu á samfélagsmiðslum í dag. Þar kemur fram að Atli sé að flytja til Akureyrar og samkvæmt heimildum Fótbolta.net er hann á leið í Þór.

Atli, sem er 34 ára, er uppalinn hjá Þór. Hann hélt suður og samdi við KR eftir tímabilið 2011 með Þór. Hann vann deildina tvisvar sinnum með KR og bikarinn tvisvar.

Í sumar kom hann við sögu í 17 leikjum og lagði upp fjögur mörk í Bestu deildinni.

„Atli á langan og farsælan feril með KR, mest sem sóknarmaður sem heillaði áhorfendur með liprum leik. Hann varð Íslandsmeistari 2013 og 2019 og bikarmeistari 2012 og 2014. Atli lék 340 leiki með KR yfir 12 keppnistímabil og skoraði alls 60 mörk, hann er því fimmti leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Glæsilegur árangur hjá góðum KR-ingi."

„Knattspyrnudeild KR þakkar Atla fyrir frábært framlag til félagsins og óskar honum góðs gengis,"
segir í kveðju KR. KR birti með færslunni kveðjumyndband sem má sjá hér að neðan.

Atli kvaddi stuðningsmenn KR með færslu á Facebook.

„Kæru KR-ingar,

Fyrir 14 árum tókuð þið mér með opnum örmum. Takk fyrir ómetanlegan stuðning allan þennan tíma. Takk fyrir öll augnablikin og sigrana.

Takk fyrir mig,"
skrifar Atli.



Athugasemdir
banner