Jakob Héðinn Róbertsson samdi fyrr í vetur við KA en hann kemur frá uppeldisfélaginu Völsungi. Hann er tvítugur sóknarmaður sem var markahæsti leikmaður Völsungs í Lengjudeildinni í sumar. Fótbolti.net ræddi við Jakob um skiptin.
„Það var heyrt í mér í glugganum í sumar, ég frétti að það sé áhugi frá nokkrum liðum, en þegar ég heyrði frá KA þá fór allur áhugi minn þangað og ég vildi græja það sem fyrst. Mig langaði að klára tímabilið á Húsavík og það varð raunin að ég fór svo eftir tímabilið," segir Jakob Héðinn.
„Staðsetningin heillar, ég er ennþá frekar nálægt mínu heima. Það eru líka miklar tengingar við Húsvíkinga. Ég er að feta í fótspor pabba, hann lék með KA á sínum tíma. Þegar ég frétti af áhuga þaðan var ég ákveðinn að fara þangað."
Róbert Ragnar Skarphéðinsson er faðir Jakobs og hann lék með Völsungi, Breiðabliki og KA á sínum ferli. Hann var nokkuð lágvaxinn miðjumaður en sonur hans er sóknarmaður.
Markmið Jakobs er að vinna sér sæti í KA liðinu. „Ég get ekki verið að setja neinar kröfur eða neitt, ég er búinn að mæta á nokkrar æfingar og það er klárlega tempó-munur. Ég þarf bara að venjast því sem fyrst og planið er að komast í liðið sem fyrst. Mig langar að spila með þessum mögnuðu leikmönnum ,það er markmið eitt, tvö og þrjú."
„Ég hef mest spilað úti vinstra megin, en ég er klár í að spila hvar sem er af þessum fremstu stöðum. Kanturinn, eða framherji, mér finnst bæði fínt. Ég var heppinn að við í Völsungi spiluðum mikið í kringum mig á kantinum, ég var mikið að vinna í kringum Ella (Elfar Árna). Þegar hann var meiddur var ég settur fram og mér fannst það fínt, mjög gaman að spila það hlutverk. Ég var mest á kantinum til þess að reyna nýta hraðann."
Jakob skoraði tíu mörk í sumar. Komstu jafnvel sjálfum þér á óvart?
„Ég myndi segja það, ég var ekki að búast við því, en sem betur fer hafði Alli (Aðalsteinn Jóhann þjálfari) mikla trú á mér og vildi mikið spila í kringum mig."
Hann segir að það hafi verið erfitt að yfirgefa Völsung. „Ég sá eiginlega fyrir mér að spila með Völsungi þangað til ég myndi hætta. En þegar tilboðið kom gat ég ekki sagt nei."
„Það verður pínu erfitt að spila ekki leikina með Völsungi, en ég er bara mjög spenntur að sjá næsta tímabil."
Jakob byrjaði ungur að spila með meistaraflokki Völsungs. Jóhann Kristinn Gunnarsson var þá þjálfari liðsins og gaf honum mínútur. Hlutverkið varð svo stærra þegar menn duttu út vegna meiðsla. Hann þakkar Jóa og Alla fyrir traustið.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum best.
Athugasemdir























