banner
   mán 27. febrúar 2023 11:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Corinne Diacre, harðstjórinn sem bjó til eitrað andrúmsloft
Mun segja starfi sínu lausu á morgun
Corinne Diacre.
Corinne Diacre.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Íslands og Frakklands á EM síðasta sumar. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Wendie Renard fara yfir málin með dómaranum.
Úr leik Íslands og Frakklands á EM síðasta sumar. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Wendie Renard fara yfir málin með dómaranum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kadidiatou Diani í baráttu við Sveindísi Jane Jónsdóttur.
Kadidiatou Diani í baráttu við Sveindísi Jane Jónsdóttur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frakkar fagna marki gegn Íslandi í sumar.
Frakkar fagna marki gegn Íslandi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Diacre mun segja starfi sínu lausu á morgun.
Diacre mun segja starfi sínu lausu á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er búist við því að Corinne Diacre, þjálfari franska kvennalandsliðsins, muni segja starfi sínu lausu á morgun. Margir leikmenn hafa á síðustu dögum stigið til hliðar frá liðinu út af stjórnarhættum hennar.

Wendie Renard, fyrirliði Frakklands, steig fyrst allra leikmanna fram á föstudaginn og sagði aðstæður ekki boðlegar í liðinu. Hún nefndi þjálfarann ekki í yfirlýsingu sinni en franskir fjölmiðlar eru vissir um að Diacre beri sök í málinu.

„Ég elska Frakkland meira en nokkuð annað. Ég er ekki fullkomin, langt frá því, en ég get ekki lengur stutt núverandi kerfi sem er langt frá því sem krafist er á hæsta stigi. Þetta er sorglegur dagur en nauðsynlegur til að varðveita andlega heilsu mína," skrifaði Renard í færslu sinni.

Hin 32 ára gamla Renard er gríðarlega öflugur miðvörður og ein sú besta í sinni stöðu í heiminum. Hún á að baki 142 landsleik fyrir þjóð sína.

Síðar sama dag þá tilkynntu Kadidiatou Diani og Marie-Antoinette Katoto, sem eru báðar stórkostlegir leikmenn, að þær myndu líka taka sér pásu frá landsliðinu. Enn fleiri leikmenn fylgdu svo í kjölfarið.

Mættu Íslandi síðasta sumar
Frakkland spilaði við Ísland á Evrópumótinu síðasta sumar en fyrir þann leik var skrifuð frétt hér á Fótbolta.net um Diacre og hennar feril en hægt er að lesa hana hérna.

Hún var á sínum tíma sterkur varnarmaður og lék 121 landsleik fyrir Frakkland. Eftir að leikmannaferlinum lauk þá gerðist hún aðstoðarþjálfari franska landsliðsins. Hún varð svo fyrsta konan til að stýra karlaliði í efstu tveimur deildunum í karladeild í Evrópu er hún stýrði Clermont Foot.

Á pappír lítur ferill hennar gífurlega vel út, en það er mikið af umdeildum málum sem lita þennan feril hennar. Það hefur verið talað um það að hún sé harðstjóri og að leikmenn fari í landsliðsverkefni með hnút í maganum af ótta við hana. Henni hefur verið líkt við einræðisherra, eða einræðisfrú. Hún hefur fengið viðurnefnið „drekinn" og það hefur verið í umræðunni að það sé mikið svigrúm til bætingar í samskiptum hennar við leikmenn.

Fyrir síðasta Evrópumót tók hún þá ákvörðun að skilja tvær af helstu stjörnum liðsins eftir heima. Amandine Henry og Eugénie Le Sommer fóru ekki með á mótið. Diacre lenti í útistöðum við báða leikmenn; hún gagnrýndi Le Sommer á síðasta heimsmeistaramóti fyrir að hundsa fyrirmæli og þá var hún ósátt þegar Henry, sem er fyrrum fyrirliði liðsins, gagnrýndi spilamennsku liðsins opinberlega í viðtali.

„Hún er mjög ströng og er með harða skel," sagði Syanie Dalmat, íþróttafréttakona á L'Equipe, við Fótbolta.net um Diacre síðasta sumar.

Sagan endalausa
Það virðist sem andrúmsloftið í franska landsliðinu hafi orðið baneitrað upp á síðkastið því núna vilja leikmenn ekki spila fyrir hana, þær vilja frekar fara í verkfall heldur en að spila fyrir franska landsliðið á meðan hún er þjálfari. Þegar umdeild mál eru skoðuð á hennar ferli með franska landsliðið, þá er ekki nóg að líta bara til síðasta sumars.

Hún hefur rifist við goðsagnir í franska kvennalandsliðinu og með hana við stjórnvölinn þá hefur verið mikið kaos. Leikmenn eru sagðir ósáttir við hana innan sem utan vallar, en sérstaklega utan vallar. Frammistaða liðsins hefur ekki verið sérlega sannfærandi undir hennar stjórn, en utan vallar hefur mörgum leikmönnum liðið gríðarlega illa andlega með hana sem þjálfara.

Diacre tók fyrirliðabandið af Renard þegar hún tók við sem þjálfari Frakklands árið 2017. Hún gagnrýndi hana svo í fjölmiðlum fyrir að spila ekki nægilega vel með landsliðinu. Renard, sem síðar fékk fyrirliðabandið aftur, íhugaði þá að hætta í landsliðinu.

Gaëtane Thiney, sem spilaði 163 A-landsleiki fyrir Frakkland á sínum ferli, gagnrýndi Diacre harðlega í febrúar 2020. „Didier Deschamps (þjálfari franska karlalandsliðsins) er þjálfari sem kann að stjórna mismunandi persónuleikum og þróa leiðtoga. Hann verndar leikmenn sína, elskar þá og styður. Corinne Diacre ætti að sækja innblástur til hans."

Tveimur vikum eftir þessi ummæli þá hætti Diacre að velja Thiney í hóp sinn. Árið 2020 var talað um það í Frakklandi að andrúmsloftið í hópnum væri hræðilegt, en í september það ár ákvað markvörðurinn Sarah Bouhaddi að taka sér pásu frá landsliðinu eftir 149 leiki með liðinu. Hún var á þeim tíma einn besti markvörður í heimi, og er það líklega enn.

„Hún sagði við mig að ég væri ástæðan fyrir því að hún vildi ekki snúa aftur í franska landsliðið," sagði Diacre um markvörðinn við fréttamenn. Það var samband Bouhaddi við þjálfarann sem varð til þess að hún hætti að klæðast frönsku landsliðstreyjunni. Líkt og aðrir leikmenn eru að gera núna.

Tveimur árum fyrir Evrópumótið voru vangaveltur um það hvort það væri hægt fyrir Diacre að halda áfram í þessu starfi. Andrúmsloftið í hópnum væri það slæmt út af hennar vinnuaðferðum. Hún fékk samt að halda áfram og fékk að stýra liðinu á Evrópumótinu þar sem liðið komst í undanúrslit.

Núna er engin framtíð fyrir hana. Vandamál milli Diacre og leikmanna, þetta er sagan endalausa. Hún er búin að fá flesta leikmenn liðsins upp á móti sér og það var ekkert annað í stöðunni fyrir hana en að segja starfi sínu lausu. Hún mun gera það á morgun og spurning er hvort það muni marka nýtt upphaf fyrir franska landsliðið sem hefur aldrei tekist að vinna stórmót í kvennaboltanum.

Næst er það HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar, en það er talsvert líklegra að það takist að vinna það mót án hennar en með hana við stjórnvölin.


Athugasemdir
banner
banner
banner