Onana orðaður við Sádí-Arabíu - Wharton til Liverpool - Barcelona búið að finna eftirmann Lewandowski
   sun 27. apríl 2025 20:33
Brynjar Ingi Erluson
Lærisveinar Freysa á toppinn eftir fjórða sigurinn í röð - Stefán og Sveinn Aron á skotskónum
Freysi er að gera stórkostlega hluti með Brann
Freysi er að gera stórkostlega hluti með Brann
Mynd: Brann
Sveinn Aron skoraði fyrir Sarpsborg
Sveinn Aron skoraði fyrir Sarpsborg
Mynd: Sarpsborg
Sverrir Ingi lagði upp gegn sínum gömlu félögum
Sverrir Ingi lagði upp gegn sínum gömlu félögum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann unnu fjórða deildarleikinn í röð er liðið lagði Bryne að velli, 3-2, á heimavelli í dag, en liðið kom sér um leið í toppsæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Brann tapaði fyrsta deildarleik tímabilsins en hefur svarað vel fyrir það.

Eggert Aron Guðmundsson spilaði á miðsvæðinu í fjórða sigri liðsins í röð og er Brann nú komið með 12 stig á toppnum.

Stefán Ingi Sigurðarson skoraði seinna mark Sandefjord í 2-0 sigri liðsins á Brynjar Inga Bjarnasyni, Viðari Ara Jónssyni og félögum í Ham/Kam.

Markið gerði hann á 48. mínútu sem var hans þriðja í deildinni á tímabilinu.

Brynjar Ingi var í byrjunarliði Ham/Kam en Viðar kom inn af bekknum í síðari. Sandefjord er í 9. sæti með 6 stig en Ham/Kam í 14. sæti með 3 stig.

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði fyrsta deildarmark sitt með Sarpsborg í 3-2 tapi gegn Loga Tómassyni og hans mönnum í Strömsgodset.

Logi byrjaði hjá Strömsgodset en fór af velli á 69. mínútu á meðan Sveinn Aron kom inn af bekknum hjá Sarpsborg sex mínútum áður og gerði mark sitt á lokamínútum leiksins.

Sarpsborg er í 6. sæti með 7 stig en Strömsgodset í 8. sæti með 6 stig.

Framherjinn Hilmir Rafn Mikaelsson lék síðasta stundarfjórðunginn í 4-4 dramatísku jafntefli Viking gegn Tromsö. Alls voru þrjú mörk skoruð í uppbótartímanum en Tromsö tókst að jafna þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Viking er í 4. sæti með 10 stig.

Kristian tók stig af Ajax

Kristian Nökkvi Hlynsson lék allan leikinn fyrir Spörtu Rotterdam sem gerði 1-1 jafntefli við Ajax í hollensku úrvalsdeildinni.

Íslenski landsliðsmaðurinn er á láni hjá Spörtu frá Ajax út þetta tímabil og eflaust verið súrsæt tilfinning að stela stigi af liðinu sem hefði með sigri sett níu fingur á titilinn.

Nökkvi Þeyr Þórisson var á bekknum hjá Spörtu en kom ekkert við sögu. Sparta er í 10. sæti með 35 stig.

Rúnar Þór Sigurgeirsson kom inn af bekknum hjá Willem II sem tapaði fyrir Sittard, 1-0. Willem II er í 16. sæti með 24 stig og útlit fyrir að liðið þurfi að fara í umspil til að halda sæti sínu í deildinni.

Daníel Freyr Kristjánsson byrjaði hjá Fredericia sem gerði 1-1 jafntefli við Esbjerg í meistarariðli dönsku B-deildarinnar. Fredericia er hársbreidd frá því að tryggja sæti sitt í úrvalsdeild en liðið þarf tvo sigra til þess.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn af bekknum hjá Gent sem tapaði fyrir Anderlecht, 1-0, í meistarariðli belgísku úrvalsdeildarinnar. Gent er í neðsta sæti með 26 stig.

Sverrir Ingi lagði upp og Hörður búinn að jafna sig af meiðslum

Að lokum var Sverrir Ingi Ingason í miðri vörn hjá Panathinaikos sem tapaði fyrir PAOK, 2-1, í meistarariðli grísku úrvalsdeildarinnar.

Hann lagði upp eina mark Panathinaikos á 3. mínútu fyrir félaga sinn í vörninni, Tin Jedvaj, en PAOK jafnaði eftir rúman hálftíma og gerði sigurmarkið snemma í þeim síðari.

Aðeins eitt stig skilur að liðin í baráttu þeirra um sæti í Meistaradeildinni, en Panathinaikos er í 2. sæti með 56 stig á meðan PAOK er í 3. sæti með 55 stig.

Hörður Björgvin Magnússon, sem hefur verið að glíma við erfið meiðsli undanfarin tvö tímabil, er heill heilsu og var valinn í hópinn sem ferðaðist til Thessaloniki, en var ekki á bekknum.

Hann gæti því mögulega verið í endanlegum hóp þegar liðið heimsækir AEK í næstu umferð eða gegn Olympiakos í lokaumferðinni.
Athugasemdir
banner