Þór tapaði gegn ÍBV á heimavelli í Lengjudeildinni í dag. Fótbolti.net ræddi við Sigurð Heiðar Höskuldsson þjálfara Þórs eftir leikinn.
„Það er mjög mikið svekkelsi hvernig við spilum þennan leik. Þetta var keppni í fyrsta og öðrum bolta. Boltinn mikið upp í loftinu og mikið stopp. VIð réðum ekki við þann leik sem ÍBV fann okkur í dag," sagði Siggi Höskulds.
Lestu um leikinn: Þór 0 - 3 ÍBV
Tveir leikmenn fæddir árið 2008 komu við sögu hjá Þór í dag. Einar Freyr Halldórsson var í byrjunarliðinu og Sverrir Páll Ingason kom inn á sem varamaður.
„Þetta eru strákar sem eru búnir að æfa með okkur allt tímabilið. Einar var búinn að vinna sér inn að vera í startinu í dag og gerði það mjög vel. Svo kemur Sverrir inn og hann stóð sig frábærlega, þetta eru unglingalandsliðsmenn sem eru frábærir í fótbolta og eiga skilið að spila í liðinu," sagði Siggi.
Aron Einar Gunnarsson hefur lengi verið orðaður við Þór en hann gæti samið við liðið í glugganum.
„Það verður að koma í ljós hvernig það fer. Hann er aðeins byrjaður að æfa og hann fer í myndatöku. Ef það kemur vel út þá kemur hann vonandi og spilar eitthvað með okkur," sagði Siggi.