Ísland mætir Norður-Írlandi í seinni leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar annað kvöld. Ísland vann öruggan 0-2 sigur í fyrri leiknum sem fór fram í Norður-Írlandi.
Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson og fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir sátu fyrir svörum á blaðamannafundi sem haldinn var á Laugardalsvelli fyrr í dag.
Þorsteinn segir alla leikmenn klára í bátana annað kvöld eftir átök föstudagsins og býst ekki við miklum breytingum á liðsvalinu.
Íslenska liðið sýndi mikla yfirburði á Ballymena Showground vellinum í Norður-Írlandi. En landsliðsþjálfarinn var spurður hvort hann byggist við öðruvísi leik frá Norður-Írum þar sem þær þurfi nú að sækja til sigurs.
„Ég á von á að þær liggi aftarlega á vellinum og muni reyna skyndisóknir. Ég hugsa samt sem áður að á morgun verði þær 'agressívari' í því að koma sér í skyndisóknir, þær voru frekar rólegar í því á föstudaginn. Þegar þær fá einhver tækifæri til að koma sér framar á völlinn þá munu þær gera það.“
„Af viðtölum við þjálfara Norður-Íra að dæma þá var hann mjög sáttur við seinni hálfleikinn og sáttur við varnarleik liðsins. Þannig ég býst ekkert endilega við stórvægilegum breytingum.“
Glódís Perla var því næst spurð um helstu hætturnar í liði Norður-Íra.
„Það voru í rauninni skyndisóknirnar, þó að þær hefðu ekki verið margar. Þær fengu einhverjar tvær hornspyrnur og allir þessir hlutir eru tækifæri fyrir þær. Við þurfum að vera klárar í að hleypa þeim ekki í þessar stöður sem þær vilja komast í.“
„Undirbúningurinn og það sem við leggjum upp með er aðeins meira sóknarlegs eðlis. Að reyna leysa þeirra varnarleik frekar en hvar við þurfum að loka. Við horfum meira í það hvernig við ætlum að opna þær og skora á móti þeim.“
Þorsteinn var spurður út í hvernig væri að koma inn í leiki þar sem Ísland er sigurstranglegra liðið.
„Þó að við vitum að við séum betri en Norður-Írland skiptir máli að við mætum í þennan leik með réttu hugarfari og lítum ekki of stórt á okkur. Við mætum þessum andstæðingi og berum virðingu fyrir honum.“
„Við ætlum að mæta hingað og vera við sjálf. Það er gríðarlegt atriði á morgun að vera ekki að horfa í það að við eigum að vera betri. Dagurinn á morgun segir hvort við séum betri og ef við vinnum á morgun þá erum við betra liðið.“
Leikurinn hefst klukkan 18:00 annað kvöld og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.


