Mikael Neville Anderson var á skotskónum annan leikinn í röð er Djurgården vann 6-2 stórsigur á Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni í dag.
Miðjumaðurinn hefur komið sér vel fyrir í liði Djurgården síðan hann kom frá AGF í sumar.
Hann skoraði í tapi liðsins í síðustu umferð og gerði þá fyrsta markið í stórsigrinum í dag.
FlashScore gaf honum 8,1 í einkunn fyrir frammistöðuna, en Mikael hefur verið með bestu mönnum liðsins og er að hjálpa þeim í baráttu um Evrópusæti.
Djurgården er í 4. sæti með 45 stig, þremur stigum frá GAIS sem situr í Evrópusæti þegar tvær umferðir eru eftir.
Al-Gharafa, lið Arons Einars Gunnarsson, vann 3-1 sigur á Al Ahli Doha í stjörnudeildinni í Katar.
Aron Einar byrjaði á bekknum en kom inn á í hálfleik þegar staðan var markalaus.
Al Gharafa skoraði þrjú mörk í þeim síðari og bar sigur úr býtum, en það er áfram á toppnum með 16 stig eftir sjö leiki.
Brynjólfur Andersen Willumsson sneri aftur í hópinn hjá Groningen og kom inn af bekknum þegar liðið lagði Sittard að velli, 2-1, í hollensku úrvalsdeildinni.
Gott að sjá hann aftur á vellinum eftir að hafa verið valinn besti leikmaður septembermánaðar í hollensku deildinni. Groningen er í 4. sæti með 18 stig.
Davíð Snær Jóhannsson kom inn af bekknum hjá Álasundi sem gerði 1-1 jafntefli við Moss í norsku B-deildinni. Ólafur Guðmundsson sat allan tímann á bekknum. Álasund er í 4. sæti með 48 stig þegar tvær umferðir eru eftir en útlit er fyrir að liðið fari í umspil um sæti í efstu deild.
Jason Daði Svanþórsson spilaði síðustu tíu mínúturnar í 3-2 tapi Grimsby Town gegn Crewe Alexandra í ensku D-deildinni. Grimsby er í 6. sæti með 24 stig.
Athugasemdir




