Daníel Tristan Guðjohnsen náði í fjórðu stoðsendinguna í sænsku deildinni á þessu tímabili er Malmö vann 3-2 sigur á Värnamo í Malmö í dag.
Framherjinn er að eiga frábært tímabil með Malmö en hann lagði upp fyrsta mark liðsins í dag.
Hann hefur nú skorað fjögur mörk og gefið fjórar stoðsendingar í deildinni, en Malmö er í 4. sæti með 42 stig. Arnór Sigurðsson var ekki með vegna meiðsla.
Lúkas Petersson stóð vaktina í marki varaliðs Hoffenheim sem gerði 1-1 jafntefli við Ulm í þýsku C-deildinni. Hoffenheim er í 4. sæti með 14 stig sem nýliði í deildinni.
Hjörtur Hermannsson var í hjarta varnarinnar hjá Volos sem tapaði fyrir AEK, 1-0, í grísku úrvalsdeildinni. Volos er í 6. sæti með 6 stig eftir fimm leiki.
Kristófer Jónsson byrjaði á miðsvæðinu hjá Triestina sem vann öruggan 3-0 sigur á Renate í A-riðli C-deildarinnar á Ítalíu. Triestina er á botninum með -9 stig.
Sjö stig voru dregin af Triestina fyrir tímabilið vegna fjárhagsvandræða félagsins og hafði Triestina tekist að koma sér úr mínus áður en fótboltasambandið dró þrettán stig til viðbótar. Það er því nú með -9 stig eftir sjö leiki, sextán stigum frá öruggu sæti.
Andri Fannar Baldursson byrjaði hjá Kasimpasa sem vann 2-1 útisigur á Rizespor í tyrknesku úrvalsdeildinni. Kasimpasa er í 11. sæti með 8 stig.
Athugasemdir