Pep Guardiola, stjóri Manchester City, segir þungu fargi létt af liðinu eftir að það komst áfram í umspil Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Útlitið var svart í hálfleik. Liðið var marki undir gegn Club Brugge og þurfti nauðsynlega á sigri að halda til þess að komast áfram.
Endurkoman hafðist og mun Man City taka þátt í umspilinu.
„Í seinni hálfleik lyftum við sálinni og hjörtu okkar frelsuðust. Við erum komnir áfram í næstu umferð og það er gott. Fyrri hálfleikurinn var svo akademískur og við höfðum ekki neistann til að gera þetta gegn liði sem verst mjög vel,“ sagði Guardiola.
Að komast áfram hefur eflaust verið súrsæt tilfinning því andstæðingur Man City í umspilinu verður annað hvort Bayern München eða Real Madrid.
„Það verður erfitt að mæta Bayern München eða Real Madrid, en það er eftir tvær vikur og þá fáum við nokkra leikmenn til baka, meðal annars nýju leikmennina, þannig vonandi getum við átt tvo góða leiki.“
Hann er ekki farinn að spá í næsta mótherja í keppninni, en segir að það verði notalegt að geta notað þá Omar Marmoush, Vitor Reis og Abdukodir Khusanov í þeim leikjum.
„Ótrúlega mikilvægt. Við höfum þurft að þjást mikið á tímabilinu án leikmanna. Það gefur okkur fleiri kosti að fá þessa leikmenn inn og svo kemur Jeremy (Doku) vonandi til baka líka, þannig við munum hafa leikmennina og ætlum að gera okkar besta.“
Hvað mun þetta gera fyrir Man City?
„Ég veit það ekki. Tímabilið hefur verið í miklu ójafnvægi, en það var ákveðinn léttir. Þetta er samt sem áður langt tímabil fyrir okkur,“ sagði Guardiola.
Athugasemdir