Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 29. febrúar 2024 12:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vörumerki í vörn og sókn
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Aðsend
Jóhann Skúli Jónsson.
Jóhann Skúli Jónsson.
Mynd: Aðsend
Pétur Vilhjálmsson.
Pétur Vilhjálmsson.
Mynd: Aðsend
Vörumerki íþróttafélaga eru mikilvægur þáttur í ímynd og sjálfsmynd félaganna og stuðningsmanna þeirra og félögin nota vörumerki með ýmsum hætti til að styrkja tengsl við stuðningsmenn sína og samfélagið allt. Eins og vörumerki almennt geta þau verið mjög verðmæt og stundum verðmætustu eignir félaganna.

Verulegur hluti af veltu stærstu íþróttafélaga í heimi kemur af sölu á varningi merktum félögunum. Sem dæmi má nefna að tekjur Manchester City af sölu á varningi námu tæplega helmingi af 120 milljarða ($826 milljónir) veltu félagsins tímabilið 2022/23.

Á hverjum degi birtast okkur óteljandi vörumerki sem við tengjum okkur við og stjórna kauphegðun okkar, til að mynda við val á fatnaði og matvörum. Vörumerki eru tákn sem notuð eru til að auðkenna vörur og þjónustu og skráð vörumerki tryggir einkarétt á notkun merkisins fyrir viðkomandi vörur eða þjónustu.

Við forðumst vörumerki eftir slæma reynslu og mælum með öðrum við vini okkar og fjölskyldu þegar vörur og þjónusta hafa staðist væntingar okkar.

Bandarísk íþróttalið langverðmætust
Af 50 verðmætustu íþróttafélögum í heimi árið 2022 samkvæmt Forbes skipuðu bandarísk félög 12 efstu sætin og samtals 42 sæti af 50. Á toppnum trónir lið Dallas Cowboys í NFL deildinni en verðmæti félagsins var metið á rétt rúmlega 1.100 milljarða króna ($8 milljarða). Verðmætasta knattspyrnuliðið, Real Madrid, náði einungis 13. sæti listans en verðmæti þess var þá metið 700 milljarðar ($5,1 milljarður).

Mörg verðmætustu íþróttafélög heims hafa skráð vörumerki sín hér á landi, m.a. öll félögin í NBA deildinni, auk stærstu fótboltaliða á Englandi og víða um Evrópu enda um að ræða fyrirferðamikil vörumerki hérlendis og á alþjóðavísu. Vörumerkin eru sýnileg víða, m.a. á fatnaði barna og fullorðinna, í íþróttaumfjöllun og í ýmiss konar auglýsingaefni. Þá má ekki líta framhjá hinni aldalöngu hefð að láta húðflúra á sig merki íþróttafélaga.

Íþróttafélög hafa í auknum mæli fært út kvíarnar til að stækka vörumerki sín og auka tekjumöguleika. Ein leið sem liðin hafa farið er að gera vörumerki sín aðgengilegri og eftirsóttari fyrir einstaklinga sem ekki skilgreina sig sem harðkjarna stuðningsmenn eða íþróttaáhugafólk.

Hér liggur beinast við að nefna gríðarlega vel heppnað samstarf franska knattspyrnuliðsins PSG við Nike og vörumerki þeirra Air Jordan sem hefur haft í för með sér að varla er hægt að ganga um stræti evrópskra stórborga í fimm mínútur án þess að rekast á a.m.k tíu einstaklinga í PSG x Jordan fatnaði.

Þá breytti sigursælasta félag ítalskrar knattspyrnu, Juventus, útliti vörumerkis síns árið 2017 til þess að „endurskilgreina sig innan hins stóra afþreyingariðnaðar“ (Giorgio Ricci, chief revenue officer hjá Juventus við Bleacher Report).

Lítill hluti merkja íslenskra íþróttafélaga skráður
Íslensk íþróttafélög eiga flest merki sem þau nota til að merkja búninga sína, auglýsingar og ýmsan söluvarning. Íþróttafélögin skipa stóran sess í íslensku samfélagi og margt fólk tengir sig við ákveðin félög og merki þeirra. Félögin gegna stóru lýðheilsuhlutverki og í starfi þeirra liggur mikill félagsauður.

Síðastliðið sumar stóð RÚV fyrir áhugaverðri umfjöllun um merki íþróttafélaga þar sem hópur álitsgjafa var fenginn til að skera úr um hvaða merki væri flottast. Fjölmörg merki voru metin og sitt sýndist hverjum, en í öllu falli er ljóst að merki íþróttafélaga skapa sterkar tilfinningar hjá fólki – og mörg þeirra eru vel heppnuð og vel hönnuð.

Skráning á vörumerki er grundvallaratriði til að vernda auðkenni og verðmæti vörumerkja. Það skýtur því skökku við að aðeins lítill hluti merkja íslenskra íþróttafélaga hefur verið skráður hjá Hugverkastofunni.

Á yfirstandandi keppnistímabili í handbolta og körfubolta og á síðastliðnu tímabili í fótbolta voru samtals 26 félög með lið í efstu deildum karla og kvenna. Af þeim eiga aðeins sjö félög skráð vörumerki á Íslandi. Til samanburðar má nefna að enska félagið Manchester United á skráð ellefu vörumerki á Íslandi.

Það er áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna svo mörg íslensk íþróttafélög hafa ekki skráð merkin sín. Í fljótu bragði getur ástæðan m.a. verið skortur á vitund um mikilvægi skráninga á vörumerkjum.

Fjárhagslegar ástæður geta sömuleiðis spilað inn í, þ.e. að félögin telji að kostnaðurinn við að skrá sé meiri en ávinningurinn eða að umsóknarferlið sé flókið og óaðgengilegt. Þá er ekki ólíklegt að einhver félög telji áhættuna á því að sleppa skráningu ekki vera mikla og að merkin verji sig sjálf. „Þetta hlýtur að reddast“.

Þá vekur það sömuleiðis athygli að KSÍ er það eina af stóru boltasérsamböndunum þremur sem hefur skráð vörumerki hjá Hugverkastofunni.

Af hverju að skrá vörumerki?
Þau íþróttafélög sem hafa skráð vörumerki sín hjá Hugverkastofunni hafa þar með betri stjórn á því með hvaða hætti merkin eru notuð og geta bannað öðrum aðilum að nota þau í markaðslegum tilgangi. Hér er ástæða til að minna á að víða erlendis er mikið framboð af fölsuðum varningi eða eftirlíkingum, þar sem merki íþróttafélaga eru notuð heimildarlaust. Eitt áhrifaríkasta vopnið í baráttunni við falsaðan varning er einmitt skráning vörumerkis.

Á þeim markaði sem íþróttir á Íslandi búa við geta tekjumöguleikar verið fáir. Sterkasta eign hvers félags er vörumerki þess, sem aðdáendur í mörgum tilvikum sýna skilyrðislausa hollustu. Þrátt fyrir að það sé ólíklegt að við munum sjá stræti evrópskra stórborga troðin af fólki í varningi frá Skallagrími eða Fylki eru miklir möguleikar fyrir hendi sé vörumerkið rétt notað. Samstarf Víkings Reykjavík og fatahönnuðarins Hildar Yeoman við gerð treyju sem seld var til góðgerðarmála síðastliðið sumar er gott dæmi um hvernig félögin geta notað vörumerki sín sjálfum sér og öðrum til heilla.

Á vef Hugverkastofunnar er einfalt að sækja um skráningu vörumerkis með rafrænum skilríkjum. Eftir að umsókn berst má vænta ákvörðunar Hugverkastofunnar um skráningu merkis innan fárra vikna. Starfsfólk Hugverkastofunnar er ávallt tilbúið að veita umsækjendum leiðbeiningar og ráðgjöf áður en sótt er um.

Jóhann Skúli Jónsson
Pétur Vilhjálmsson
Athugasemdir
banner
banner