fim 29. apríl 2021 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þau gera rosalega mikið úr því að ég kunni að skalla"
Arna Sif í leik með Þór/KA.
Arna Sif í leik með Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur leikið vel frá því skoska kvennadeildin fór af stað. Langt hlé var á deildinni vegna Covid en Arna og lið hennar, Glasgow City, hafa verið að gera mjög vel.

Arna er á láni hjá skoska félaginu frá Þór/KA og heldur heim til Íslands í maí.

Sjá einnig:
Arna Sif tilnefnd sem leikmaður mánaðarins hjá Glasgow

Arna var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Heimavöllurinn á dögunum þar sem hún ræddi veruna í Skotlandi.

„Lífið er dásamlegt í Glasgow. Það er ekki út á neitt að setja eiginlega," sagði Arna Sif.

„Ég fór út til að fá leiki, til þess að sleppa undirbúningstímabilinu heima og vera búin að spila fullt af góðum leikjum þegar Pepsi Max-deildin byrjar. Ég fer út og liðið mitt æfir heima á meðan ég þarf að fara út að hlaupa í Skotlandi. Þetta var smá asnalega staða en við reyndum að gera gott úr þessu. Það var reynt allt til að fá að æfa og það endaði þannig að við fengum að æfa tvær og tvær saman."

Það hefur gengið vel og Akureyringurinn hefur verið að kenna Skotanum hvernig eigi að skalla.

„Þau gera rosalega mikið úr því að ég kunni að skalla, það er eins og ég hafi verið að finna upp hjólið sko. Það er liggur við: 'Getur þú kennt okkur'. Það er rosalega fyndið hvað þau gera mikið úr þessu," segir Arna en planið í hornum hefur verið að finna hana í teignum. Hún náði að skora í fyrsta leik eftir horn.

„Þetta er klárlega einn af mínum helstu styrkleikum. Þetta á alltaf að vera dauðafæri fyrir mig. Ég á að vera búin að skora fleiri, ég er búin að vera pínu klaufi. Það er ekki búið að vera mikið skorað úr föstum leikatriðum hjá þessum liðum."

Missir af byrjun Íslandsmótsins
Arna missir af byrjun Pepsi Max-deildarinnar með Þór/KA þar sem hún er leiðtoginn í ungu liði.

„Ég held ég sé að fara heim 10. maí. Ég er að fara að missa af fyrstu þremur leikjunum með Þór/KA með þessari fimm daga sóttkví sem ég er að fara í," sagði Arna en hún nær sennilega þremur leikjum í viðbót með Glasgow.
Heimavöllurinn - Of feimin til að mæta á æfingar, FH ætlar upp og Arna Sif dóminerar skosku háloftin
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner