mán 29. júní 2020 11:31
Elvar Geir Magnússon
Lárus ósáttur við KSÍ - „Neyða okkur til að spila þó hópurinn sé í tætlum"
Lárus Guðmundsson.
Lárus Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við munum skoða stöðu okkar, það er ekki viðunandi að þessu sé fylgt eftir með þessum hætti að hálfu KSÍ," segir Lárus Guðmundsson, stofnandi KFG.

Lárus er virkilega óánægður með að KFG, sem spilar í 3. deildinni, fær ekki að fresta næstu tveimur leikjum en fjórir úr leikmannahópnum eru í sóttkví.

„Þau vanvirða ósk KFG um að næstu tveimur leikjum verði frestað þar sem fjórir eru í sóttkví og þar af þrír algjörir lykilmenn," segir Lárus en Kári Pétursson og Þórhallur Kári Knútsson eru tveir af þeim sem eru í sóttkví.

Þurfa fimm að vera í sóttkví til að leik sé frestað
„KSÍ segir að það þurfi fimm menn að vera í sóttkví til að fresta. Allir leikmenn liðsins fara í skimun í dag að tilstuðlan landlæknis."

„Það er fyrir neðan allar hellur að lið sem ætlar í toppbaráttu sé neytt til að spila án þriggja bestu manna sinna. Margir eru óöruggir því þeir hafa umgengist einn þeirra sem hefur fundið til slappleika. Menn eru með fókusinn á möguleg smit innan liðsins en ekki á fótboltann."

Leik KFG og Ægis sem átti að vera á laugardag var frestað en hann á nú að vera spilaður í kvöld.

„KSÍ gefur öðrum liðum forgjöf í baráttu gegn KFG í 3. deildinni vegna reglu hjá þeim sem segir að þurfi að vera fimm leikmenn frá svo hægt sé að fá frestun. Við erum neyddir til að taka þátt þó hópurinn sé í tætlum, þetta er forgjöf sem er gefin af KSÍ til liðanna sem eru í samkeppni við okkur í deildinni."

„Þetta er hentugleika-ákvörðun mótanefndar sem týnir í gegn framkvæmd að mótinu því það hentar þeim ekki að fresta leikjum. Það er óásættanlegt að forsendum sé breytt með þessum hætti," segir Lárus.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner