
Chris Brazell þjálfari Gróttu var mjög svekktur eftir tap liðsins gegn Vestra á Ísafirði í dag. Fótbolti.net ræddi við hann eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Vestri 3 - 0 Grótta
„Þeir fóru illa með okkur í dag. Þeir spiluðu vel en við illa, við töpuðum 3-0 og við áttum það skilið. Andstæðingurinn á skilið hrós en ég er svekktur með frammistöðuna okkar," sagði Chris Brazell.
Brazell hefur litlar áhyggjur af komandi leikjum.
„Ég veit ekki yfir hverju ég ætti að hafa áhyggjur. Fyrir daginn í dag vorum við í 4. sæti, það er góður andi í hópnum. Við höfum tapað fjórum leikjum, ég veit að við mætum hindrunum, þetta er ekki fyrsta árið mitt í þjálfun," sagði Brazell.
Liðið mætir tveimur efstu liðum deildarinnar, ÍA og Aftureldingu í næstu tveimur leikjum.
„Það eru tvö spennandi lið, lið sem eru að gera mjög vel í deildinni. Við vitum að ef við náum okkar besta getum við keppt við þá og unnið. En það verða líka erfiðir leikir ef við spilum eins og í dag," sagði Chris Brazell.