Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 29. september 2022 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Færir rök fyrir því að hæfasti aðilinn starfi nú þegar í byggingunni
Sarina Wiegman.
Sarina Wiegman.
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate.
Gareth Southgate.
Mynd: EPA
England lyfti gullinu á EM í sumar.
England lyfti gullinu á EM í sumar.
Mynd: EPA
Enska karlalandsliðið hefur verið gagnrýnt harðlega upp á síðkastið í kjölfarið á lélegum úrslitum og neikvæðum fótbolta.
Enska karlalandsliðið hefur verið gagnrýnt harðlega upp á síðkastið í kjölfarið á lélegum úrslitum og neikvæðum fótbolta.
Mynd: EPA
Wiegman er gríðarlega fær þjálfari.
Wiegman er gríðarlega fær þjálfari.
Mynd: Getty Images
Eftir um þrjá mánuði eru góðar líkur á því að enska fótboltasambandið þurfi að fara í þjálfaraleit fyrir karlalandslið þjóðarinnar.

Gareth Southgate hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir lélega og leiðinlega spilamennsku liðsins upp á síðkastið en framundan er HM í Katar. Það er mikil pressa á Southgate á leiðinni inn í þetta mót.

Michael Cox skrifar áhugaverða grein fyrir The Athletic í dag þar sem hann veltir því fyrir sér hver gæti tekið við af Southgate ef hann stígur frá borði eftir HM.

Graham Potter og Eddie Howe, sem hafa verið efstir hjá veðbönkum, eru báðir í góðum störfum sem erfitt væri fyrir þá að stíga frá. Frank Lampard og Steven Gerrard eru ekki búnir að sanna sig og Sean Dyche er ekki rétti kosturinn í ljósi þess hvernig fótbolta hann vill spila.

Mauricio Pochettino, Brendan Rodgers og Thomas Tuchel - enginn af þeim enskur - eru aðrir kostir sem hafa verið nefndir til sögunnar en Cox segir að enginn líklegur til að taka þetta starf.

„Svo er það djarfi kosturinn," skrifar Cox og nefnir Sarina Wiegman, þjálfara enska kvennalandsliðsins.

Wiegman hefur náð stórkostlegum árangri sem þjálfari, bæði hjá hollenska landsliðinu og því enska. Hún er búin að stýra báðum þessum þjóðum til Evrópumeistaratitils og hefur byggt upp einstaklega góð lið.

„Ef stefnt er á sigur á EM 2024 þá er enska fótboltasambandið nú þegar með tvöfaldan Evrópumeistarar í starfi hjá sér. Hún er með 100 prósent sigurhlutfall í tveimur keppnum. Hún kom líka Hollandi í úrslitaleik HM," skrifar Cox.

Hann segir að á pappír sé Wiegman fullkomlega hæf í starfið, en fólk muni færa rök fyrir því að hún sé kona og hafi náð þessum árangri í kvennaboltanum sem er öðruvísi en karlaboltinn. Cox færir hins vegar rök fyrir því á móti að það sé ekki hægt að líta fram hjá þeim árangri sem hin hollenska Wiegman hefur náð í landsliðsumhverfi. Það eru ekki margir þjálfarar, hvort það sem er í karla- eða kvennafótbolta, sem hafa náð slíkum árangri með landslið.

Hann nefnir það sérstaklega að Wiegman hafi marga kosti í sínu fari sem Southgate, núverandi landsliðsþjálfari, hafi ekki. Hún hafi margt fram yfir hann.

„Svo er það spurningin hvort Wiegman myndi vilja starfið. Það er ekki bara hægt að líta karlabolta - sama hvernig hann er - sem skref upp á við úr kvennaboltanum. Það er ekki hægt að líta á það þannig eins og Emma Hayes, þjálfari Chelsea, kom inn á í fyrra þegar hún var orðuð við Wimbledon. Það var rétt hjá henni; að fara úr besta kvennaliði landsins yfir í lið sem var í vandræðum í C-deild karla væri klikkun. En að fara úr enska kvennalandsliðinu í enska karlalandsliðið er annað," skrifar Cox.

Hann nefnir að Wiegman hafi komið yfir til Englands frá Hollandi þar sem hún fær betur borgað hjá enska fótboltasambandinu og líka út af því að þetta var spennandi áskorun. England hafði alltaf fallið á síðustu hindrun á stórmótum, en hún kom þeim yfir þá hindrun og stýrði þeim alla leið.

Ef hún tekur við enska karlalandsliðinu þá fær hún aðra spennandi áskorun því karlarnir hafa ekkert unnið síðan 1966. Hún myndi þá líka fá mun betur borgað í karlalandsliðinu. Það eru mun meiri peningar í karlaboltanum eins og er.

Það er áhugaverð umræða hvort konur geti þjálfað á hæsta stigi karlafótboltans, en það eru ekki mörg dæmi um það. Af hverju ekki? Það er jú mjög góð spurning. Karlar eru að þjálfa á hæsta stigi kvennaboltans svo af hverju er ekki hægt að snúa dæminu við?

Ef Wiegman myndi taka við karlalandsliði Englands, þá væri hún ekki sú fyrsta til að skipta yfir úr kvennalandsliði og yfir í karlalandslið. John Herdman gerði það hjá Kanada og hér á Íslandi skipti Freyr Alexandersson á milli þegar hann fór úr kvennalandsliðinu í það að þjálfa karlalandsliðið með Erik Hamren.

„Skortur á reynslu Wiegman í samskiptum við karlkyns leikmenn er vandamál en það er líka eina vandamálið. Og það er vandamál sem hægt er að leysa," skrifar Cox og leggur hann til að Wiegman komi inn í þjálfarateymi Englands fyrir HM. Hún geti hjálpað Southgate mikið og fengið góð reynslu.

„Við skulum orða það á annan hátt. Ef það væri forveri Wiegman, Phil Neville, sem hefði stýrt enska kvennalandsliðinu Englands til sigurs á EM 2022, þá myndi fólki þykja það mjög eðlilegt að Neville fengi aukna reynslu með því að vinna í þjálfarateymi Southgate og vera talinn hugsanlegur eftirmaður hans. Ef það er ekki hugsað um Wiegman á sama hátt, þá er einhvers konar mismunun í gangi."

Cox segir að þetta sé bara spurning um að ráða hæfasta aðilinn í starfið og Wiegman hljóti að vera þar á meðal.

Sjá einnig:
Wiegman trompar forvera sína: Búið til skrímsli sem tætir allt í sig


Athugasemdir
banner
banner
banner