banner
   lau 30. mars 2013 16:10
Þórir Hákonarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Að hafa rangt við
Pistill frá Þóri Hákonarsyni framkvæmdastjóra KSÍ
Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson
Myndirnar tengjast efni pistilsins ekki beint.
Myndirnar tengjast efni pistilsins ekki beint.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftirfarandi var haft eftir forseta UEFA, Michel Platini, í viðtali ekki alls fyrir löngu „If tomorrow, we go watch a game already knowing the outcome, football is dead,"

Platini lét hafa þessi orð eftir sér í tengslum við eitt mesta vandamálið sem knattspyrnan stendur frammi fyrir, þ.e. hagræðingu úrslita. Þessi orð geta þó átt við í fleiri tilfellum því miður.

Á undanförnum vikum hafa nokkur aðildarfélög sem taka þátt Lengjubikarkeppninni tekið þá ákvörðun að tefla vísvitandi fram ólöglega skipuðum liðum í leikjum keppninnar, þ.e. að tefla fram leikmönnum sem ekki eru með leikheimild hjá viðkomandi félagi og gera það meðvitað. Í einhverjum tilfellum hafa þjálfarar þessara félaga komið svo fram í fjölmiðlum, ýmist fyrir eða eftir leik, og sagt að þetta hafi verið meðvituð ákvörðun þar sem liðið hafi þurft að skoða ólöglegu leikmennina og að skoða þurfi reglur í kringum Lengjubikarinn á þann veg að heimilt verði að nota leikmenn án leikheimildar í þessum leikjum.

Ítrekað hefur komið fram að þar sem mótið er skipulagt og haldið á vegum KSÍ er einfaldlega ekki hægt að fara framhjá alþjóðlegum reglum varðandi hlutgengi leikmanna og það hefur einnig komið ítrekað fram hvaða áhættu forsvarsmenn félaga sem hafa rangt við með þessum hætti eru að taka, t.d. ef leikmennirnir slasast eða slasa aðra, hver ber ábyrgðina og hvaða fjármunir gætu verið í húfi fyrir félögin ef til skaðabóta kæmi. Þetta er þó langt frá því að vera eina hlið málsins og í mínum huga er ekki síður mikilvægt að hugleiða hvaða skilaboð forsvarsmenn félaganna eru að senda knattspyrnuhreyfingunni.

Áhorfendur og stuðningsmenn eru auðvitað einn mikilvægasti hluti knattspyrnunnar, það eru þessir aðilar sem gera knattspyrnuna að vinsælustu hópíþrótt í heimi. Er hægt að sýna þessum aðilum meiri lítilsvirðingu en að mæta til leiks þar sem meðvitað er tekin ákvörðun um það af hálfu annars liðsins að tapa leiknum 0-3 vegna ólöglega skipaðs liðs? Hvernig geta forsvarsmenn félaga og þjálfarar farið fram á að áhorfendur og stuðningsmenn liðsins sýni því áhuga þegar þannig er komið fram? Hef ég áhuga á að taka börnin mín með mér á leiki þar sem ég þarf að útskýra fyrir þeim að alveg sama hversu mörg mörk eru skoruð og hvort liðið skorar fleiri mörk þá sé vitað fyrirfram hvort liðið vinnur?

Hvað með mótherjana? Er það virðing og sanngirni gagnvart mótherjanum að mæta til leiks þar sem úrslitin eru í raun ljós áður en leikur hefst? Slík framkoma er aðeins stigsmun frá því að hagræða úrslitum leikja og á í engu að líðast. Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi hefur farið þá leið að beita frekar mildum refsingum sé brotið gegn lögum og reglum og einhverjum þjálfurum og forsvarsmönnum liða hefur þótt sú leið fáránleg og í ljósi mildra refsinga taki þessir aðilar þá ákvörðun að hafa rangt við í leiknum. Nær siðferðið þá ekki lengra en veskið í þessum tilfellum? Ef þú hefur efni á því að svindla þá er það semsagt í lagi eru skilaboðin sem verið er að senda ungum iðkendum knattspyrnunnar.

Fleiri aðilum er sýnd lítilsvirðing með þessu háttalagi. Fjölmiðlar missa auðvitað áhugann á því að fjalla um leiki þar sem úrslitin liggja fyrir áður en leikur hefst og á því tapa allir, hlutverk fjölmiðla er afar mikilvægt en það er skiljanlegt að þeir hafi ekki áhuga þegar málum er svona háttað. Skipuleggjendum mótsins, styrktaraðila, dómurum, starfsmönnum KSÍ og öllum öðrum sem að leikjum koma er sýnt virðingarleysi. Félög greiða ekki fyrir þátttöku í leikjum í Lengjubikarnum en samt sem áður er verulegur kostnaður við leikina. Ef félögin sjálf geta ekki útvegað leikvöll er leigður völlur sem KSÍ greiðir fyrir, dómarar fá greitt fyrir leikina og þeir sem skipuleggja mótið fá greitt fyrir það líka enda um mikla vinnu að ræða. Fullt af fólki leggur á sig vinnu og tíma við að njóta leiksins en öllu því fólki er varla sýnd mikil virðing með þessari framkomu.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir forsvarsmenn félaga sem taka þátt í þessum óheiðarlega leik hvort það sé líðandi að þjálfarar sem greitt fá fyrir vinnu sína geti með ákvörðunum sínum orðið félaginu til skammar með því að hafa rangt við í leiknum sem svo margir berjast fyrir að halda heiðarlegum. Íslensk knattspyrna hefur mjög gott orðspor og fjölmargar þjóðir öfunda okkur af því hversu gott orðspor fer af heiðarleika innan knattspyrnunnar á Íslandi enda margir sem hafa orðið illilega fyrir barðinu á skipulagðri hagræðingu úrslita á undanförnum árum.

Með framkomu örfárra einstaklinga sem reikna siðferði sitt í krónum og aurum er þessu góða orðspori ógnað og við það er ekki hægt að búa. Ég vona svo sannarlega að knattspyrnuhreyfingin á Íslandi íhugi vel á hvaða vegferð við erum þegar mönnum þykir það í raun ekkert tiltökumál að hafa rangt við, að svindla, í knattspyrnuleikjum og fyrirbyggi það að einstaka aðilar innan hreyfingarinnar taki ákvarðanir sem skaða alla þá sem hafa gaman af leiknum og starfa við hann.

Umræða um aðrar leiðir varðandi skoðun á leikmönnum í æfingaleikjum er svo annað en sú umræða verður ekki leidd áfram með því að hafa rangt við og brjóta þær reglur sem nú eru í gildi.

Höfum rétt við, leikum heiðarlega og verjum orðspor íslenskrar knattspyrnu.

Kveðja
Þórir Hákonarson
framkvæmdastjóri KSÍ
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner