Man Utd blandar sér í baráttuna um Estevao - Man Utd sýnir Guirassy áhuga - Man Utd í viðræðum um varnarmanninn Dragusin
banner
   mið 30. ágúst 2023 11:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hareide talaði við Albert: Hann skilur reglur sambandsins
Icelandair
watermark Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson er ekki í landsliðshópnum fyrir næstu tvo leiki í undankeppni EM 2024. Ísland mætir Lúxemborg og Bosníu í september.

Albert, sem spilar með Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni, var nýverið kærður fyrir kynferðisbrot. Samkvæmt reglum KSÍ má ekki velja leikmann í landsliðsverkefni á meðan mál sem þessi eru á borði lögreglu.

Albert sneri aftur í íslenska landsliðið í sumar þegar Age Hareide tók við en hann hafði ekki verið í hópnum í heilt ár. Hareide ræddi við fréttamenn í dag og sagðist þar hafa rætt við Albert eftir að málið kom upp.

„Ég hef talað við leikmanninn og útskýrt fyrir honum reglurnar. Við þurfum að líta í aðrar áttir án Alberts. Hann veit hvernig reglurnar eru og verður ekki valinn í þessa tvo leiki," sagði Hareide.

Fréttamaður Fótbolta.net spurði hann svo frekar út í Albert og út í samtalið þeirra á milli.

„Albert skilur reglur sambandsins. Ég er vonsvikinn að svona skuli koma upp en þetta er ekki í mínum höndum. Ég talaði við leikmennina í kvöldverðinum eftir leikinn á móti Portúgal og hrósaði þeim fyrir þeirra vinnu. Albert var einn af þeim sem lagði mest á sig fyrir liðið. Ég sagði við hina leikmennina að við þurfum að einbeita okkur að fótboltanum og við þurfum að leyfa lögreglunni að rannsaka málið. Það má ekki hafa áhrif á okkur. Við þurfum að finna nýja leikmenn í staðinn."

„Þetta er ekki í mínum höndum, eins og ég segi. Ég er ráðinn til að vera þjálfari og ég einbeiti mér að fótboltanum. Ég fylgi reglum sambandsins. Ég hringdi í Albert og sagði honum frá stöðunni. Hann sætti sig við það," sagði Hareide.

Albert er 26 ára og hefur leikið 35 landsleiki fyrir Ísland.

Sjá einnig:
Landsliðshópurinn - Stór nöfn ekki með
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner