Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson er óvænt úr leik í hollenska bikarnum eftir að lið hans, NAC Breda, tapaði fyrir C-deildarliði Barendrecht. 2-1. í kvöld.
Elías Már var í byrjunarliði Breda í dag sem lenti óvænt undir eftir átta mínútna leik.
Breda jafnaði leikinn á 50. mínútu leiksins en þegar rúmar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Barendrecht sigurmarkið og skaut sér áfram í 32-liða úrslit bikarsins.
Elías var líflegur í sóknarleiknum hjá Breda. Hann lagði upp kjörið tækifæri fyrir Maximilien Balard en markvörðurinn varði frá honum og þá fékk Elías sjálfur tvö góð færi en tókst ekki að skora.
Hann fór af velli á 81. mínútu leiksins. Svakaleg högg fyrir Breda að vera úr leik en liðið leikur í úrvalsdeildinni í Hollandi.
Hinn ungi og efnilegi Breki Baldursson kom inn af bekknum í 2-0 tapi Esbjerg gegn Álaborg í 16-liða úrslitum danska bikarsins í kvöld.
Nóel Atli Arnórsson, sem hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur, var mættur á bekkinn hjá Álaborg, en kom ekki við sögu.
Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson fengu báðir tækifærið í byrjunarliði Elfsborg sem vann þægilegan 5-0 sigur á Eskilsminne í 2. umferð sænska bikarsins.
Eggert hefur fengið fá tækifæri með Elfsborg á tímabilinu á meðan Andri Fannar var fastamaður í liðinu í byrjun leiktíðar, en þurft að sætta sig við færri mínútur í síðustu leikjum.
Athugasemdir