þri 30. nóvember 2021 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Kjær í 18. sæti - „Besta augnablik ferilsins"
Simon Kjær
Simon Kjær
Mynd: EPA
Danski varnarmaðurinn Simon Kjær var í 18. sæti hjá France Football um Ballon d'Or verðlaunin en úrslitin voru kynnt í París í gær. Hann segir þetta stærstu stund ferilsins.

Þessi 31 árs gamli miðvörður spilaði 39 leiki fyrir Milan í öllum keppnum á síðasta tímabili og hjálpaði liðinu að komast í Meistaradeild Evrópu en árangur hans á Evrópumótinu var einnig til fyrirmyndar.

Hann hjálpaði danska landsliðinu að komast í undanúrslit mótsins og var alger klettur í miðverðinum.

Það má auðvitað ekki líta framhjá því að hann átti stóran þátt í því að bjarga lífi Christian Eriksen í fyrsta leik danska liðsins gegn Finnum á Evrópumótinu er Eriksen hneig niður.

Hann lenti í 18. sæti og var í skýjunum með árangurinn. Hann fékk yfir sig mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum og fannst mörgum hverjum fáranlegt að hann væri svona ofarlega á listanum og það fyrir að bjarga lífi en ekki fyrir getu hans á vellinum.

„Þetta er besta augnablik ferilsins. Ég var meðal 30 efstu og hjálpaði Milan að komast í Meistaradeildina. Við erum að berjast um ítölsku deildina á þessu tímabili og ég hef alltaf reynt að finna leiðir til að bæta leik minn. Ég hef aldrei efast ágæti mitt og það kemur mér ekki á óvart að ég sé hér í dag," sagði Kjær.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner