Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 31. janúar 2020 23:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Draumur Ighalo að rætast - „Mun gefa allt sitt til að ná árangri"
Odion Ighalo. Draumur hans er að rætast.
Odion Ighalo. Draumur hans er að rætast.
Mynd: Getty Images
Ighalo var áður á mála hjá Watford.
Ighalo var áður á mála hjá Watford.
Mynd: Getty Images
Ighalo í leik gegn Íslandi á HM 2018.
Ighalo í leik gegn Íslandi á HM 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Odion Ighalo er að ganga í raðir Manchester United á láni frá Shanghai Shenhua í Kína. Hann verður á láni hjá United út tímabilið.

Hann er fenginn til félagsins út af meiðslum Marcus Rashford sem verður frá næstu vikurnar.

Þetta er draumur að rætast fyrir Ighalo sem hefur haldið með Manchester United frá því í barnæsku. Í kvöld hefur verið í dreifingu mynd á samfélagsmiðlum frá uppvaxtarárum Ighalo. Á myndinni er hann í Manchester United treyju.

Ighalo þekkir ensku úrvalsdeildina vel eftir að hafa áður leikið fyrir Watford. Tímabilið 2015/16 skoraði hann 15 mörk í 37 úrvalsdeildarleikjum fyrir Watford.

John Bennett hjá BBC þekkir til Ighalo og talar hann mjög vel um nígeríska sóknarmanninn sem hefur verið í Kína frá 2017.

„Odion er einn indælasti leikmaður sem ég hef kynnst. Hann er mikið í góðgerðarstörfum heima fyrir í Nígeríu. Þá er hann mjög hæfileikaríkur sóknarmaður," skrifar Bennett í kvöld.

„Ég er viss um að þið hafið heyrt allt það neikvæða um hann, svo ég skal segja ykkur það jákvæða: Ighalo er náttúruleg nía og náttúrulegur markaskorari með hraða og kraft. Barcelona reyndi að fá hann fyrir 12 mánuðum því þeim langaði í þannig leikmann. Hann neitaði."

„Hann er sterkur karakter líka. Hann fékk mikla gagnrýni heima fyrir vegna þess að hann klúðraði færum gegn Argentínu á HM (fjölskylda hans fékk líka að finna fyrir gagnrýninni). Hann svaraði því með að vera markahæstur í undankeppni Afríkukeppninnar og á mótinu sjálfu. Hann hafði þar betur gegn leikmönnum eins og Sadio Mane, Mohamed Salah og Riyad Mahrez."

„Ighalo hefur sannað sig í ensku úrvalsdeildinni og mun fara vel af stað ef líkamlegt stand hans leyfir. Hann er líka mjög vinsæll liðsfélagi sem mun gefa allt sitt til að ná árangri hjá Manchester United. Enginn mun leggja harðar að sér."

Þegar hann var leikmaður Watford þá var fjölskylda Ighalo búsett í Manchester. Þetta er svo sannarlega draumur að rætast fyrir þennan þrítuga leikmann.

Hann er sagður hafa hafnað Tottenham og Inter til þess að komast til Manchester United.

Hann verður auðvitað ekki með gegn Úlfunum á morgun, en næsti leikur United eftir það er gegn Chelsea 17. febrúar. Hann fær því góðan tíma til að kynnast nýjum liðsfélögum og nýju liði.
Athugasemdir
banner
banner