Írski sparkspekingurinn Roy Keane var ekki hrifinn af því sem hann sá frá Erling Braut Haaland í markalausa jafnteflinu gegn Arsenal í kvöld.
Keane gagnrýndi Haaland og almenna spil hans. Norðmaðurinn hafði ekki úr miklu að moða í leiknum og var þetta fremur rólegur dagur í þetta sinn.
Hann var ekkert að deila um ágæti Haaland fyrir framan markið enda einn sá besti í heiminum að klára færi, en segir að hann verði að bæta spil sitt.
„Almennt spil hans er svo slakt. Ekki bara í dag. Þegar hann er að klára sóknir með sköllum eða hvað sem það er og hann er fyrir framan markið þá er hann sá besti í heiminum, en hið almenna spil fyrir leikmann af þessari stærðargráðu er svo slakt. Hann verður að bæta þetta því hann lítur næstum því út eins og D-deildar leikmaður, þannig horfi ég á hann. Hann verður að bæta almenna spilið og það mun gerast á næstu árum,“ sagði Keane.
Athugasemdir