Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   sun 31. júlí 2022 18:36
Jóhann Þór Hólmgrímsson
EM kvenna: Fótboltinn er kominn heim
Kvenaboltinn
Mynd: EPA

England W 2 - 1 Germany W
1-0 Ella Toone ('62 )
1-1 Lina Magull ('79 )
2-1 Chloe Kelly ('111 )


England og Þýskaland mættust í úrslitaleik EM kvenne í dag. Mótið fór fram á Englandi en liðin mættust á Wembley.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð rólegur en bæði lið fengu þó sín færi en báðir markverðirnir héldu hreinu og því markalaust í hálfleik.

Þær þýsku byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti en Mary Earps í marki Englands var vel vakandi og sá við þeim. Ella Toone framherji Englands og Manchester United kom inná sem varamaður snemma í síðari hálfleiknum.

Hún gerði sér lítið fyrir og kom Englandi yfir eftir rúmlega klukkutíma leik þegar hún vippaði boltanum snyrtilega yfir Merle Frohms í marki Þýskalands.

Þjóðverjar gáfust ekki upp og Lina Margull leikmaður Bayern Munchen jafnaði metin þegar tæplega 10 mínútur voru eftir af leiknum.

Ekki voru fleiri mörk skoruð og grípa þurfti til framlengingar.

Mikið jafnræði var með liðunum í öllum leiknum en það voru Englendingar sem skoruðu eina markið. Eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu komst Chloe Kelly í boltann og tryggði Englandi sinn fyrsta Evróputitilinn.


Athugasemdir
banner