Mainz var nálægt því að rifta samningi sínum við hollenska kantmanninn Anwar El Ghazi eftir að hann birti færslu á samfélagsmiðlum tengda stríðinu sem geisir í Palestínu og Ísrael.
El Ghazi eyddi færslunni út og baðst afsökunar á að hafa birt hana, en þrátt fyrir það sögðu heimildarmenn við BBC að Mainz hyggðist rifta samningi við hann.
Sú varð raunin þó ekki, samningi El Ghazi hefur ekki verið rift. Hann á afturkvæmt í liðið eftir að hafa beðist afsökunar.
El Ghazi gekk til liðs við Mainz á frjálsri sölu í september og kom við sögu í þremur leikjum í röð áður en félagið setti hann í agabann eftir síðata landsleikjahlé.
El Ghazi hefur verið að koma inn af bekknum til að reyna að breyta gangi mála á lokakafla leikja, og gaf hann stoðsendingu í síðasta leik sínum sem lauk með 2-2 jafntefli gegn Borussia Mönchengladbach. Mainz er aðeins með þrjú stig eftir níu umferðir og situr á botni þýsku deildarinnar.
El Ghazi er staddur heima í Hollandi þessa stundina og greinir BBC frá því að það sé óljóst hvort hann muni snúa aftur til Mainz þrátt fyrir tilkynningu félagsins um að hann megi það.
El Ghazi gerði garðinn frægan með Aston Villa í enska boltanum en hefur einnig leikið fyrir Ajax, Lille, Everton og PSV Eindhoven.
18.10.2023 06:00
Settur í bann eftir að hafa sýnt Palestínu stuðning
Athugasemdir