Antony, Casemiro, Eriksen og Lindelöf ekki í myndinni hjá Amorim - Hindranir fyrir Man Utd - Real Madrid hefur áhuga á Porro
   fim 31. október 2024 10:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tíu ára kafla Elfars Árna og KA líklega lokið - Áhugi hér og þar
Elfar Árni Aðalsteinsson.
Elfar Árni Aðalsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er spurning hvað Elfar Árni gerir næst.
Það er spurning hvað Elfar Árni gerir næst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég sé fram á það að ég sé líklegast á förum frá KA," segir sóknarmaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson í samtali við Fótbolta.net.

Elfar Árni, sem er 34 ára, hefur síðustu tíu árin leikið með KA og gengið í gegnum margt í félaginu.

„Ég er að renna út á samningi í mánuðinum og er bara að skoða mín mál. Ég hef heyrt af áhuga hér og þar, en ekkert sem hefur farið þannig séð af stað," segir Elfar.

Er að leitast eftir því að spila meira
Elfar kom í sumar við sögu í 13 leikjum í Bestu deildinni og skoraði þrjú mörk.

„Tímabilið var svolítið upp og ofan hjá okkur, en ég sjálfur var ekkert sérstaklega sáttur við mitt hlutverk. Ég hefði viljað spila meira. Það er það sem maður horfir á núna. Það er spurning hvað verður í boði," segir sóknarmaðurinn.

„Ég er búinn að vera í KA í tíu ár. Það er búið að fara mikið fram síðan ég kom fyrst. Kannski er sá kafli að verða búinn. Ég er búinn að upplifa margt með félaginu og það er held ég kominn tími á að prófa eitthvað nýtt. Við fórum í Evrópu, unnum bikarmeistaratitil og enduðum í öðru sæti. Þetta hefur verið frábær tími."

„Ég er að leitast eftir því að spila meira og líklegast verð ég að gera það annars staðar," segir Elfar jafnframt.

Liggur leiðin heim?
Völsungur, uppeldisfélag Elfars, er komið upp í Lengjudeildina og því liggur beinast við að spyrja: Ertu á leið heim?

„Ég er auðvitað búinn að heyra eitthvað í mínum mönnum. Þeir hafa sagt mér aðeins hvernig þeir stilla þessu upp. Ég er að taka því rólega núna eftir langt og strangt tímabil. Ég er að skoða hvað er besta skrefið fyrir mig að taka næst. Það verður bara að koma í ljós hvað það verður," segir Elfar Árni.
Athugasemdir
banner
banner